Kajak-menning á Íslandi hefur hert róðurinn á undanförnum árum og í dag fagnar Kayakklúbburinn fertugsafmæli sínu. Guðni Páll Viktorsson formaður klúbbsins segir fögnuðinn langþráðan. „Við erum í rauninni orðin fjörtíu ára en höfum verið að fresta þessu endurtekið í samræmi við takmarkanir í samfélaginu,“ segir hann. „Vonandi náum við að láta þetta ganga núna.“ Í kvöld munu meðlimir klúbbsins svo fagna tímamótunum með tilheyrandi róðri, afmælisköku og hraðprófum.

Frá því að klúbburinn var stofnaður hefur hann stækkað jafnt og þétt, en Guðni Páll segir að það hafi þó ekki orðið gríðarleg sprenging eins og í sambærilegum útivistarsportum. „Í dag telur klúbburinn um 350 meðlimi sem gerir okkur að einum stærsta félagi innan Siglingarsambandi Íslands,“ segir hann. „Svo er auðvitað misjafnt hve virkir meðlimirnir eru.“

Þótt vinsældir sportsins fari vaxandi segir Guðni Páll þó ólíklegt að kajakkinn leysi einkabílinn af hólmi í bráð. „Ég held við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því í bili.“

Ólík sjónarhorn

Að kaupa nýjan kajakk getur verið fjárfesting sem hleypur á nokkur hundruð þúsundum en Guðni Páll segir langbest fyrir áhugasama að kíkja á byrjendanámskeið. „Það er best að taka fyrstu skrefin undir handleiðslu og spyrja nóg af spurningum,“ segir hann. „Það er alltaf hægt að byrja í kajakk en það þarf auðvitað ákveðinn stofnpakka til að gera hlutina vel.“

Þrátt fyrir að veðrið á Íslandi geti verið krefjandi er kajakróður stundaður allan ársins hring en Guðni Páll segir að Kayakklúbburinn sé vel búinn og leggi áherslu á öryggi í öllum viðburðum. Sjálfur segir Guðni Páll að náttúran frá nýjum vinklum sé eitt það helsta sem heilli sig við sportið.

„Fyrir mig er þetta fyrst og fremst ferðamennskan, að geta ferðast um landið og séð staði sem aðrir hafa kannski ekki tækifæri á að sjá,“ segir hann. „Það er allt annað að sjá landið frá sjó heldur en að labba það eða keyra.“