Á leiðinni í Korn­húsið kem ég við í Heimilis­iðnaðar­fé­laginu. Þar eru for­maður þess, Margrét Valdimars­dóttir, og Lára Magnea Jóns­dóttir textíl­hönnuður að fást við ullar­garn í ýmsum litum. Á borði liggja ótal ferningar með fjöl­breyttum mynstrum sem saumuð eru með þessu garni og upp að vegg halla sér púðar með slíkum ferningum í miðju.

„Heimilis­iðnaða­ré­lagið er aðili að sýningunni Karó­lína vefari í Korn­húsinu í Ár­bæjar­safni og hefur verið að búa til sölu­vöru í tengslum við hana,“ út­skýrir Margrét. „Hópur kvenna, Sauma­klúbbur Karó­línu, hefur hist hér reglu­lega í marga mánuði til að sauma mynstur Karó­línu sem á sínum tíma seldi vin­sælar út­saum­s­pakkningar. Lára Magnea tók að sér að velja þau og laga að nú­tímanum.“

Lára Magnea grípur þráðinn:

„Já, ég fékk það við­fangs­efni að nota þessi gömlu mynstur til að búa til nýjar út­saum­s­pakkningar. Fyrst lagðist ég í rann­sóknir og hug­mynda­vinnu. Ekki gat ég gert eftir­líkingar af risa­stórum vegg­teppum og út­saums­myndum Karó­línu. Það er annað sam­fé­lag í dag en þegar hún var og hét. En þetta verða verk­efni sem allir ráða við.“

Margrét hefur haldið utan um saumaklúbbsverkefnið af öryggi.
Mynstur Karólínu prýddu heimili landsins á síðustu öld og ganga nú í endurnýjun lífdaga.

„Þegar Karó­lína gerði út­saum­s­pakkningar á sínum tíma var allt saumað í ullar­jafa sem hún fram­leiddi á vef­stofunni, nú er ullar­jafi ó­fáan­legur svo við saumum mynstrin í stramma og fyllum upp á milli,“ lýsir Margrét.

Hún og Lára Magnea eru sam­mála um að hörku­stemning sé fyrir púðum á nú­tíma­heimilum og þær segjast ætla að kynna þetta kross­saum­s­verk­efni á Hönnunar­mars í Aðal­stræti 10.

„Það er vakning í kringum hand­verk – allt þetta upp­runa­lega og út­saumur er í tísku, bæði hér á landi og á al­þjóða­vísu,“ full­yrðir Lára Magnea.

Heimilis­iðnaðar­fé­lagið tengir þessar þrjár konur saman. Karó­lína var for­maður þess á tíma­bilinu 1923 til 1927, Margrét er nú­verandi for­maður og Lára Magnea var formaður á tímabili auk þess sem hún starfaði í verslun fé­lagsins í Fálka­húsinu í Hafnar­stræti í fimm ár.

„Karó­lína hefur verið mögnuð manneskja og mikill frum­kvöðull,“ segir Margrét. „Hún óf hús­gagna­á­klæði og glugga­tjöld fyrir stofnanir, fyrir­tæki og heimili og rak vef­stofu og verslun við Ás­valla­götuna með myndar­brag.“

Sýningin Karó­lína vefari verður opnuð 15. maí klukkan 15.

Hluti afraksturs vinnu Saumaklúbbs Karólínu.