„Það er hægt að tala um alls konar umhverfi, allt frá áhrifum himingeimsins á okkur og alveg niður í kústaskápinn,“ segir Páll um umhverfissálfræðina. „Þetta er mjög víðfeðmt fag.“

Þegar kemur að náttúrunni á Íslandi segir Páll að við búum við ýmsar aðstæður sem geti þótt sérstakar út frá sjónarhorni umhverfissálfræðinnar.

„Við Íslendingar búum við það að við erum með ákveðnar öfgar þegar kemur að birtu. Hér er mjög bjart á sumrin og dimmt á veturna,“ segir hann. „Þetta er mjög sérkennandi fyrir Ísland, þessar sveiflur sem hafa áhrif á marga en fyrir marga Íslendinga er þetta bara eðlilegt.“

Aldagamall siður

Páll telur upp önnur sérkenni Íslands á borð við síbreytilega veðráttu, lágt meðalhitastig sem sveiflast lítið og svo opið umhverfi og magnaða náttúru. Hann segir byggða­umhverfið á Íslandi líka eftirtektarvert.

„Litaflóran, byggingarstíllinn og fleira vekur athygli,“ segir hann. „Þess vegna er frekar grátlegt að við skulum ekki virða þessi sérkenni okkar meira en við gerum í raun því þetta er mjög gott umhverfi fyrir okkur.“

Í erindi sínu í dag hyggst Páll segja frá samspili manns og náttúru og hvað náttúran geri fyrir okkur. Þar mun hann meðal annars koma inn á græn og blá svæði og áhrif þeirra á fólk.

„Þegar við tölum um græn svæði þá erum við að flytja náttúruna inn í borgina til að viðhalda þessari tengingu við náttúruna sem við virðumst hafa mikla þörf fyrir,“ útskýrir hann. „Alveg frá því að borgmenning hefst fyrir tíu þúsund árum þá hefur maðurinn alltaf viljað taka náttúruna með sér inn í það umhverfi.“

Páll segir mikilvægt að velta þessum hlutum fyrir okkur nú þegar þéttbýlisíbúar í heiminum séu komnir yfir fimmtíu prósent af heildarfjölda og stefni í sjötíu prósent eftir þrjátíu ár.

Það er ekki nóg að tyrfa bara einhvern reit og segja að það sé grænt svæði.

„Við þurfum að huga vel að grænum svæðum, hvað þau séu og hvernig við getum búið þannig í haginn að þau séu að skila því af sér sem við viljum að þau séu að gera,“ segir hann. „Það er ekki nóg að tyrfa bara einhvern reit og segja að þar sé grænt svæði.“

Græn svæði og blá

Páll minnist skýrslu sem Reykjavíkurborg gerði fyrir um tíu árum síðan þar sem talað var um að um níutíu prósent íbúa byggju innan við þrjú hundruð metra frá grænu svæði.

„Ég fór að skoða sum af þessum svæðum og þau voru mörg hver handónýt. Við þurfum að hugsa þessi svæði út frá því hvernig þau geti þjónað mannlegum þörfum og séu bandamaður okkar í lífsbaráttunni.“

En hvað er þá átt við með bláum svæðum?

„Þá erum við að tala um tjarnir, sjó og alla staði þar sem vatn er notað sem hluti af hönnuninni,“ segir Páll og bendir á að Íslendingar séu ákaflega vel settir þegar kemur að aðgangi að vatni. „Þetta eru svæði sem hafa miklu minna verið rannsökuð, en niðurstöður hafa sýnt að hafi jafnvel enn betri áhrif á okkur en grænu svæðin. Vatnið virkar alveg rosalega vel á okkur.“

Erindi Páls hefst klukkan 12.15 og er aðgangur gjaldfrjáls.