Ja, ég er úti í París en það er allt í lagi að tala í síma,“ svarar Geirlaug Þorvaldsdóttir hótelstjóri spurningu um hvernig standi á fyrir henni að vera í smá afmælisviðtali. Geirlaug er áttræð í dag, 13. desember, og er í afmælisferð. „Mér fannst svolítið upplagt að skreppa hingað til Parísar, þó auðvitað sé algert brjálæði að fara út í óeirðir og verkföll. En ég slapp að minnsta kosti við óveðrið heima. Hér var sól og blíða í gær (þriðjudag).“ Hún kveðst þekkja borgina sæmilega vel. „Ég bjó hér í gamla daga í heilt ár, svo býr besta vinkona mín úr menntaskóla hér og við höfum það skemmtilegt saman.“

Geirlaug kveðst vera hraust og ekki hafa yfir neinu að kvarta. Hún er dóttir athafnahjónanna Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur sem stofnuðu Hótel Holt við Bergstaðastræti, eitt virtasta hótel höfuðborgarinnar. Geirlaug keypti hlut systkina sinna í því árið 2004 og hefur rekið það sjálf frá 2011. Hún kveðst ekkert tíma að selja það í bráð. „Ég kem á hótelið alla daga og ég skipti mér af en ég er með yndislegt starfsfólk, það skiptir öllu máli og er mín gæfa. En þegar maður er með eigin rekstur verður maður að vera vakandi og ég er eiginlega aldrei í fríi, enda ætla ég að koma heim strax eftir afmælið.“

Von er á mörgum gestum á Hótel Holt yfir hátíðarnar, að sögn Geirlaugar, og það segir hún að eigi við um mörg önnur hótel. „Við viljum fá gesti til landsins og einhvers staðar verður að vera opið, bæði á hótelum og veitingastöðum. Margir sækjast eftir að dvelja á Íslandi yfir hátíðar, njóta þess að sjá norðurljós og flugelda, það er gaman og líka nauðsynlegt fyrir reksturinn að sem sjaldnast séu dauðir punktar.“

Geirlaug er menntuð leikkona en kveðst fyrir löngu hætt í því starfi. „Þegar ég eignaðist mín tvö börn þá fannst þér það skemmtilegasta hlutverkið. En ég var í hálfu starfi sem kennari við Menntaskólann í Hamrahlíð í 34 ár og kenndi latínu, frönsku og þýsku. Mér er MH mjög kær, það var góður vinnustaður.“

Þegar ég bið Geirlaugu að senda mér mynd af sér í París, koma smá vöflur á hana fyrst, hún segist ekki vön að senda myndir. Tekur sig svo á. „En ég verð að læra þetta. Maður þarf alltaf að kunna meira í dag en í gær!“