„Ég myndi segja að ég sé búin að vera allt árið að undirbúa mig fyrir þessi kaflaskil,“ segir tónlistarkonan Lára Rúnarsdóttir sem fagnar fertugsafmæli í dag. „Þetta er aðeins stærra mál en að verða tvítugur eða þrítugur og svolítil staðfesting á því að ég sé orðin kona. Það er nýtt skeið að hefjast, ég finn fyrir því, sem ég tek með fullkominni sátt.“

Afmælishefðir á heimili Láru mótast meðal annars af uppvexti hennar í Svíþjóð.

„Það eru venjulega sænskir kanelbullar og brauðmeti, svo að ég verð vonandi vakin upp af fjölskyldunni með alls konar kræsingum í rúminu,“ segir hún. „Svo ætla ég að fara út að borða á uppáhaldsveitingastaðnum mínum, Austur-Indíafjelaginu.“

Leið sem litar lífið

Á föstudaginn mun Lára svo fagna tímamótunum með vinum og vandamönnum í afmælisteiti og dansipartíi sem haldið verður eftir síðbúna útgáfutónleika nýjustu plötu hennar. Platan 7 kom út þann 7.7. og er 7. plata Láru. Þar má finna tíu frumsamin lög

„Ég byrjaði í rauninni að gefa út efni af henni fyrir tveimur árum,“ segir hún. „Ég ætlaði mér ekki að hafa neina útgáfutónleika en svo fannst mér ég verða að fagna þessum tímamótum á einhvern hátt með svona tveir-fyrir-einn fögnuði – útgáfutónleikum og afmælisveislu.“

Lára opnaði jógastúdíóið Móar studio fyrir rúmu ári síðan þar sem hún kennir bæði hugleiðslu og jóga. Þar fær hún einnig útrás fyrir tónlistina þar sem hún leiðir nemendur sína í hljóðheilun og möntrusöng. Þar kemur fólk saman og kyrjar aldagamlar möntrur á ­sanskrít í bland við frumsamdar íslenskar möntrur.

„Það er mikil vakning í samfélaginu um að við þurfum að hlúa betur að okkur andlega,“ segir Lára sem telur að jógað hafi sett svip sinn á nýjustu plötu sína. „Ég hef heyrt frá fólki að það sé mikil ró í henni og að fólk finni ákveðna slökun við að hlusta á 7. Það litar í rauninni allt líf manns þegar maður kýs þessa leið vellíðunar og að rækta sig.“

Tónleikar Láru á föstudaginn fara fram í Iðnó og hefjast klukkan 19.30.