Hildigunnur Hauksdóttir fararstjóri er sem betur fer ekki undir stýri þegar ég hringi í hana af tilviljun, heldur í hádegisstoppi. „Ég kalla þetta ullarævintýri sem ég er að bralla núna og það er sniðið að prjónafólki. Við vorum að enda við að borða þvílíkan dásemdar hádegismat með desert og kaffi hjá henni Ástu Beggu í Miðási.“

Það er bara svona, segi ég – og hvar er Miðás? „Miðás er sveitabær við Kálfholtsveg, sunnan við þjóðveg eitt, skammt fyrir austan Þjórsá. Farþegar mínir eru bara að slaka aðeins á eftir matinn, sumir grípa í prjónana við svoleiðis aðstæður.“

Hildigunnur rekur fyrirtækið Rjúpa Travel og er bæði bílstjóri og leiðsögumaður á eigin farartæki, sem er nítján sæta. Eins og nærri má geta hefur verið hlé á starfseminni síðustu mánuði. „Ég hef ekkert gert annað en að sitja og prjóna og passa barnabörn frá því í febrúar,“ lýsir hún. „Það hefur verið góður tími en nú er auðvitað orðinn lítill peningur eftir í bankanum, þannig að ég hreinlega varð að finna upp á einhverju og var búin að hugsa um það áður en COVID skall á, að svona ferðir væru sniðugar, þannig að ég dustaði rykið af hugmyndinni. Hitti einhverja konu í sundi sem skoraði á mig að láta verða af því og ég bara dreif mig heim og skellti inn auglýsingu á fésbókarsíðunni minni. Fyrsta ferðin fylltist strax og ég er í henni í dag, svo ég bætti annarri ferð við í næstu viku. Ég held þetta verði vinsælt.“

Hvað skyldi hún svo vera að gera í þessari ferð? „Við byrjuðum á að koma við hjá Guðrúnu Bjarnadóttur litunarkonu á Selfossi, sem stóð yfir sjóðandi pottunum og leiddi okkur inn í heim jurtalitunar fyrr og nú. Svo stoppuðum við í Þingborg og virtum fyrir okkur fallegt handverk þar. Eftir hádegisstoppið sem við erum í núna ætlum við að Hárlaugsstöðum, sem er bær hér lítið eitt austar, en hinum megin við þjóðveginn. Þar fáum við að kynnast sútun – sem er spennandi. Síðast heimsækjum við Huldu Brynjólfsdóttur í Uppspuna, smáspunaverksmiðju í Lækjartúni, sem er hér við Kálfholtsveg líka, þannig að við erum ekkert of lengi í bílnum í einu.“

Hildigunnur telur svona ferðir tilvaldar fyrir saumaklúbba og aðra hópa, sem vilji fara saman í ferðir þegar þeim hentar. „Annars er ég með þessar ferðir á miðvikudögum, en er sem sagt bara búin að festa þá næstu, 8. júlí. Svo ætla ég að bæta við annars konar prjónaferðum strax í ágúst og fara þá á Nesjavelli og ganga kannski í tvo, þrjá tíma, fara í pottinn og fá góðan kvöldmat á hótelinu. Það væri hægt að hafa tvær mismunandi ferðir og ýmist keyra í bæinn eða gista. Þá værum við ekki að heimsækja neina framleiðslustaði, heldur bara prjóna – alltaf að prjóna og dekra við okkur í mat og drykk!“

Einungis konur eru með Hildigunni í þessari ferð, að hennar sögn. Það eru samt alveg strákar að prjóna, ég þarf að senda þeim skilaboð, en nú verð ég að fara að sinna farþegunum mínum, við erum að fara að kíkja á sútunina.“