Bókaútgáfan Sæmundur undirbýr um þessar mundir útgáfu á sjálfsævisögu Páls Skúlasonar frá Bræðratungu. Handskrifuð ævisagan fannst óvænt eftir lát Páls en í henni segir hann frá uppvexti, námsárum og störfum á hinum ýmsu sviðum.

Páll Skúlason fæddist árið 1940 og var uppalinn í Bræðratungu þar sem foreldrar hans voru bændur. Hann nam síðar lögfræði í Reykjavík sem varð hans iðja ásamt ýmsum menningarstörfum. Tímaritin Bókaormurinn og Skjöldur voru gefin út sem persónuleg málgögn Páls sem var stundum kallaður Júnkerinn af Bræðratungu.

„Hann var oft í gamni kallaður þetta því að um sumt voru lifnaðarhættir hans kannski ekki ósvipaðir lífi skáldsögupersónu eftir Halldór Laxness sem er kallaður þessu nafni,“ segir Bjarni Harðarson, eigandi Bókaútgáfunnar Sæmundar, sem var persónulegur vinur Páls. „Við vissum ekki að hann hefði skrifað ævisögu sína fyrr en bróðursonur hans rakst óvænt á snyrtilega og vel frá gengna möppu með ævisögu Páls.“

Bjarni segir ævisöguna vera skemmtilega gamaldags þar sem hann segir blátt áfram og hreinskilnislega frá samferðamönnum og lífi sínu. „Hann talar yfirleitt vel um fólk þótt það sé stundum blæbrigðamunur þar á. Það er ekki mikil bersögli í máli um átök við aðra menn.“

Dyggur hirðmaður Bakkusar

Eitt af því sem vakti athygli Bjarna í ævisögunni var hispursleysi Páls gagnvart vínhneigð sinni.

„Hann var alla tíð heill í því að vera hirðmaður Bakkusar konungs, og í ævisögunni örlar hvergi á eftirsjá eða harmi yfir því hlutskipti,“ segir Bjarni. „Langflestir í þeirri hirð eiga það sammerkt að á einhverjum tímapunkti formæla þeir Bakkusi. Þessa varð maður aldrei var í lífi Páls, og í ævisögunni sést alveg að hann var heill og lítur ekki svo á að þetta hafi getað eða átt að fara á annan veg. Þetta er athyglisvert sjónarhorn sem mér finnst að megi heyrast, þótt ég taki kannski ekki skilyrðislaust undir það.“

Páll var fagurkeri á íslenskt mál og segir Bjarni að textinn sé skemmtilega skrifaður.

„Hann var afskaplega vel lesinn og tilheyrði öllum helstu kreðsum síns tíma, sem fylgir jafnan lífi eins og hans. Hann átti alls staðar heima, eða kannski mætti segja alls staðar og hvergi.“

Þeir sem vilja tryggja sér eintak af bók Páls geta skráð sig í bókakaffisbúðum Sæmundar í Reykjavík og á Selfossi eða á Facebook-síðu útgáfunnar.