Júlíus Jónasson, vélstjóri, fæddist á Húsavík 11. nóvember 1947. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík 26. maí 2018. Útför hans fór fram frá Húsavíkurkirkju í gær, föstudaginn 1. júní.

„Það eiga allir að vera sósíalistar, ef ekki alla ævi, þá á einhverju æviskeiði í það minnsta. Annað er óeðli.“ Það sagði stjúpi minn sem ég kveð í dag. Hann var óvenju örlátur maður og ég verð mömmu ævinlega þakklát fyrir að hafa lánað honum séníver í aðdraganda alþingiskosninganna 1978. Ég var þá tveggja ára og Sigga systir á sjötta ári. Það var mikil gæfa fyrir okkur allar að eignast þennan mann fyrir pabba og eiginmann. Hann kenndi mér að hugsa skýrt og öll mín lífssýn er innblásin af hans. Hann gat vel unnt mönnum þess að vera frjálslyndir, jafnvel hægrisinnaðir, en til að vera raunveruleg manneskja þarf maður einhvern tímann að hafa verið jafnaðarmaður og sósíalisti.

Pabbi greiddi glaður sína skatta og kenndi öllum að fagna því að fá að leggja sitt af mörkum. Hann hafði óbeit á kvótakerfinu og gerðist æ meiri umhverfissinni með aldrinum. Hann var líka prinsippmaður. Þegar Davíð Oddsson tók við ritstjórn Morgunblaðsins hringdi hann upp á Mogga til að segja upp áskrift sem hann hafði haft um áratugaskeið. Nokkrum árum síðar sat ég í morgunkaffi með pabba og þótti fara hálfilla um hann, blaðalausan við tölvuna hennar mömmu. „Saknarðu Moggans pabbi?“ spurði ég. „Alltaf.“ svaraði pabbi. Hann gaf sig þó ekki. Þegar ekið var fyrir nokkru með yngstu sonarsyni hans fram hjá Hádegismóum varð öðrum þeirra að orði: „Þarna verður lygin til, það segir afi.“

Pabbi var afar vandvirkur í öllu. Hann nálgaðist grjónagraut og uppáhelling af vísindalegri nákvæmni og mér er sagt að í Björginni hafi vélin hafi alltaf verið hrein og strokin. Á sjónum saumaði hann skurði og gerði að hjartasárum skipsfélaga sinna, því um borð var Júlíus allt í senn: vélstjóri, læknir, sálfræðingur og vinur. „Menning er að gera hlutina vel“ sagði Þorsteinn Gylfason heimspekingur.

Pabbi var hrekkjóttur og þeim mun hrekkjóttari sem sá sem fyrir varð var honum kærari. Hann var í ævilöngu banni fyrir að svindla í Hundi og fleiri spilum sem gripið var í á Höfðavegi 18. Á jólum var möndlugrauturinn óvissuferð þar sem svindlmöndlum var gjarnan laumað í lófa sessunauta pabba undir borðinu.

Pabbi var ekki bara handverksmaður, heldur afbragðsteiknari og góður penni. En hann bar ekki næga virðingu fyrir þessum gáfum til að teikna og skrifa á hreinan pappír með úrvals verkfærum heldur teiknaði hann með kúlupenna aftan á dagatöl, servíettur og spássíur. Hann sagði líka dásamlega vel frá. Hann færði í stílinn en laug aldrei, málaði sterkum litum til að ljá efninu iðandi líf. Hann kenndi mér að skilja og unna góðum bókum og hvatti mig til að lesa heimsbókmenntir. Stundum, þegar hann sat í stólnum sínum og las, hóf hann upplestur upp úr þurru, og sagði svo: „Er þetta ekki unaðslegt?“

Pabbi kenndi mér að þekkja nöfnin á bæjum og fjöllum sem við ókum hjá. Hann kenndi mér hvað fuglarnir heita og fór oft með mér upp að Gónhól til að hlusta á þögnina breiða sig yfir lágnættið. Nú er búið að skemma Gónhól og ég man ekki lengur hvað fuglarnir heita. Svona fer maður illa með gjafir sínar pabbi minn.

Aðalheiður Ámundadóttir.

-----------------------------------

Fyrstu minningar mínar um afa Júlla eru fjöruferðir. Við fórum í Eyvíkurfjöru og afi sagði mér frá fuglunum og eyjunum á Skjálfanda. Svo gerðum við stíflur. Hann sagði mér að það væru krókódílar í Eyvíkurá og þegar ég datt í ánna í einni fjöruferðinni mátti engu muna að einn þeirra biti af mér fótinn. Í minningunni var áin það djúp að ég náði ekki niður og straumurinn í ánni hrefi mig með sér en afi bjargaði mér á síðustu stundu, og ég fékk að sitja í framsætinu á leiðinni heim, á nærbuxunum einum fata. Ég hágrét alla leiðina heim. 

Afi át býflugur í morgunmat og engar smá flugur heldur fannst honum risadrottningarnar bestar. Hann safnaði þeim í krukku og gleypti svo eina í einu. Eftir að hafa gleypt þær hristist hann og það mátti heyra suð inn í honum. Svo kipptist hann reglulega til, jafnvel í nokkra daga á eftir. 

Við afi stússuðum líka mikið í bátunum. Ég hjálpaði honum að líta eftir vélinni í Björginni og þá stálum við stundum ís í eldhúsinu. Svo sinntum við viðhaldi á Svavari, litla bátnum hans afa. Oft vantaði varahluti og ég man að þá grömsuðum við stundum á ruslahaugunum fyrir utan Húsavík þar sem bílhræjum var safnað. Okkur afa leiddust konurnar á heimilinu þegar Eurovision var í sjónvarpinu. Þá fórum við afi frekar á ruslahaugana og athuguðum með pumpur fyrir Svavar í gömlum bílhræjum. Þar gátum við líka fundið varahluti í hjólið mitt. Í þessu stússi var algjört grundvallaratriði að vera almennilega skítugur. Þegar við komum heim áttum við að þvo okkur um hendur með kallasápunni hans afa. Það vildi ég alls ekki. Það er karlmannlegt að vera skítugur á höndunum og amma lét það eftir mér að setjast skítugur undir nöglunum að kvöldverðarborðinu. 

Afi kenndi mér að keyra og ég keyrði fyrst á þjóðvegi tólf ára gamall. Það var vestur á Barðaströnd. Ég héldum svo uppteknum hætti og afi fór oft með mér og lét mig keyra, fyrst á afviknum vegarslóðum í kringum Húsavík og á þjóðveginum sinn hvoru megin við bæinn. Fimmtán ára gamall keyrði ég fyrst innanbæjar með afa. Við fórum út í búð og mættum löggunni á Garðarsbrautinni. Afi kippti sér ekkert upp við það, en leit undan þegar þeir keyrðu framhjá. Þegar ég fékk loksins æfingaakstursleyfi var ég orðinn fljúgandi fær á bíl. Svo þurfti ég að læra fyrir bóklega hluta bílprófsins. Það var hægt að taka slík próf á internetinu til að æfa sig. Ég lagði þessi próf fyrir afa og hann kolféll á þeim öllum og amma líka reyndar. 

Við afi áttum eftir að koma því í verk að fara á Svavari yfir að Kinnafjöllum og fara í fjöruferð þeim megin. Þangað hafði hann farið með pabba sínum þegar hann var lítill og þeir fundu þar svo fallega steina. Ég safnaði lengi steinum og afi hugsaði alltaf til mín og leit eftir fallegum steinum og færði mér þá sem hann fann.

Ég lofa því afi minn að fara bráðum þangað yfir og færa þér fallegasta steininn sem ég finn.

Elmar Freyr

-----------------------------------

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

Ó, elsku pabbi, ég enn þá er

aðeins barn, sem vill fylgja þér.

Þú heldur í höndina mína.

Til starfanna gekkstu með glaðri lund,

þú gleymdir ei skyldunum eina stund,

að annast um ástvini þína.

Þú farinn ert þangað á undan inn.

Á eftir komum við, pabbi minn.

Það huggar á harmastundum.

Þótt hjörtun titri af trega og þrá,

við trúum, að þig við hittum þá

í alsælu á grónum grundum.

(Hugrún)

Rannveig

-----------------------------------

Afi minn, hér færðu til baka kvæðið hans Steingríms í Nesi sem þú valdir að lesa fyrir mig þegar ég var tekinn í fullorðinna manna tölu. Ég mun sakna þín alltaf.

Hugur flýgur heim til vina sinna,

hjartað verst í umsetinni borg.

Og hugur spyr, hvar huggun sé að finna

hjörtum er þjást af vinamissi og sorg.

Þekkir nokkur anda og efnis skil?

Allt er af hugsun mótað, sem er til,

og það er lífsins aðgangsorð: eg vil,

er opnar hurðir leyndra salarkynna.


Hver byggði hið mikla alheimsorkuver

og efnið kerfisbatt í himingeimi?

Hver samdi lögmál leynd og opinber

í lífsins þágu vorum eigin heimi?

Hver réði gerð á rós og kristalsmynd?

Svo rökvís er ei tilviljunin blind.

  • Er sem töfravatn úr leyndri lind
  • í lífsins bikar streymi.


Hjartað kuldans heljartökum verst,

hugur reikull leitar eftir svari:

Í heljarauðn, hvar ekkert hjarta berst,

hvort eyðist hann sem ljós frá brunnu skari?

Andsvar berst frá alheims stóru sál

— orkustraumur — geimsins tungumál:

Hvert sjálf er vill fær sigrað dauðans ál

ef siglt er þar með réttu hugarfari.

Davíð Snjór