Elskulegur faðir, tengdafaðir, afi og bróðir,

Jón Rafn Jóhannsson

landmælingamaður, kortagerðarmaður og þýðandi,

Strikinu 3, Garðabæ,

sem lést þann 13. apríl, var jarðsunginn frá Landakotskirkju miðvikudaginn 18. apríl.

------------------------------------------
Sæll, Dundi bróðir!

Ég, Mannsi bróðir þinn, hefi ákveðið að kveðja þig, bróðir sæll, á þennan máta.
Ég minnist þess ekki að við höfum í gegnum jarðvistargöngu okkar ritað hvor öðrum of mörg bréf eða þá þreytt hvor annan í löngum símtölum. Því fer fjarri, en hinsvegar höfum við verið bræður á þessu ferðalagi og vitað hvor af öðrum alla hundstíð og haldið sjó sem slíkir. Ungir drengir lékum við okkur saman í Vetrarbrautinni á Siglufirði og áttum okkar ævintýrahöll í Þormóðshúsinu að Vetrarbraut. Það hús er horfið eins og allt við Vetrarbrautina. Herteviksbakarí, Frón og söluturninn okkar, þar sem við keyptum Valash. Það eina sem stendur eftir þar er fæðingarstaður okkar, húsið hennar fröken Margrétar; Vetrarbraut 4, þar sem Vignir pressari, klukkari bjó með allar kisurnar sínar og við kölluðum kisupabba við lítinn fögnuð hans.
 
Það urðu mikil umskipti hjá okkur þegar pabbi veiktist og við fluttum suður 1952. Frelsið sem við áttum á Siglufirði var glatað og lífsbaráttan var hörð við hana mömmu okkar eftir að við fluttum suður en hún kvartaði ekki mikið. Hún var ein af þessum þöglu alþýðumanneskjum sem báru ekki erfiðleika sína á torg. Þið mamma voruð nú alla tíð mjög náin hvort öðru og er ég alveg handviss að hún hefur tekið vel á móti þér, bróðir sæll.

Jæja, Dundi minn, á stundum sem þessum er jafnvel mér orðavant, mér þessum kjaftaski. Þú, bróðir sæll, ert farinn af stað í Sumarlandið okkar, þar sem tvær sólir eru á lofti í einu og ég bið þig þess að faðma pabba og mömmu, Kristján bróður og Ástu systur með kveðju frá honum Mannsa og svo náttúrlega aðra vini okkar og gleymdu ekki Hedda og Helga sem er nýfarinn. Ég ætla ekki að verða þér samferða í þetta skiptið í sólskinslandið okkar, ég er orðinn sporlatur með aldrinum en ég geri mér grein fyrir því að í förina styttist, enda kvað þar gott að vera og enginn húsnæðisskortur. Hver veit nema að við gætum sest niður og spjallað um okkar áhugamál sem við höfum alla tíð átt sameiginleg, eins og t.d. bóklestur og skoðanaskipti um þær. Bókaklúbburinn okkar beggja á margt órætt en koma tímar koma ráð. Ég ætla bara að minna þig á að einn síðasti sameiginlegi bókalestur okkar frá því í vetur er enn óafgreiddur, þú last fyrir sunnan, ég fyrir norðan.

Um tíma hélt ég að þú værir að skipta um skoðun og ætlaðir að fresta för að sinni, en enginn ræður víst sínum næturstað.
Vertu sæll, Dundi bróðir, mér þótti alltaf vænt um þig vinurinn. 

Mannsi bróðir.

Örn Byström Jóhannsson  
Einarsstöðum

---------------------------------------------------------

Elsku pabbi minn, nú ertu farinn og hvíldin er komin. Þú barðist við sjúkdóm þinn af miklu hugrekki og aðdáun okkar og allra sem önnuðust þig þína síðustu mánuði. 

Ég, Steingrímur og barnabörnin þín öll erum svo þakklát fyrir stundirnar sem við áttum saman síðustu tvær vikurnar af jarðvist þinni. 

Hann pabbi minn var víðlesinn, hann talaði ótal tungumál, meðal annars hebresku og latnesku, en hann var sjálflærður í öllum þeim tungumálum sem hann talaði og las. Hann var veraldarvanur og ferðaðist ungur um heiminn og um tíma bjó hann í München og starfaði þar sem grafískur hönnuður. Hann var mikill listamaður, málaði og teiknaði ófáar myndir af skútum sem voru hans uppáhald. Pabbi var hógvær maður og lét lítið fara fyrir því sem hann afrekaði í lífinu eins og að þýða bækur fyrir Karmelsystur í Hafnarfirði. 

Hann var stoltur af uppruna sínum og að hafa alist upp fyrstu ár sín á Siglufirði og þegar ég kynnti hann fyrir manninum mínum Steingrími og tengdaforeldrum mínum þeim Sigfúsi Steingrímssyni og Sædísi Eiríksdóttur sem voru Siglfirðingar þá var hann glaður og mynduðust sterk bönd þeirra á milli. Pabbi minn sá ekki sólina fyrir Steingrími eiginmanni mínum og ég er svo óendanlega þakklát fyrir allt sem hann gerði fyrir pabba, það voru ófá skiptin sem hann sagði mér hvað hann væri þakklátur fyrir allt sem hann gerði fyrir sig. Pabbi gat alltaf hringt í Steingrím á hvaða tíma sólarhrings sem var og þá rauk hann til hans og hjálpaði honum. Pabbi dýrkaði líka barnabörnin sín og talaði um þau í hvert skipti sem við hittumst eða töluðum saman í síma. Þú horfðir alltaf á Önnu keppa í fimleikum á öllum mótunum hennar og varst afar stoltur, en uppáhalds umræðuefnið þitt þegar við töluðum saman voru barnabörnin þín fimm.

Elsku pabbi, það er svo gott að við Steingrímur og börnin okkar öll, bróðir minn hann Bjarni og kærastan hans, hún Arna, gátum verið hjá þér þína hinstu stund. Þín verður sárt saknað, elsku pabbi minn. 

Við fjölskyldan eigum hafsjó af yndislegum minningum um þig sem gott er að rifja upp og eiga. Elsku pabbi minn, við elskum þig, nú ertu að dansa í kringum jólatréð með öllum sem á undan fóru. Amma tók á móti þér eins og þú sagðir síðustu dagana þína, þú fannst fyrir henni og fólkinu okkar. 

Hvíl í friði, elsku pabbi minn, við söknum þín.

Þín dóttir, Kolbrún.

-------------------------------------------------------------

Elsku pabbi minn.

Ég skrifa þetta með tiltölulega miklum ekka þar sem tímarnir tvennir eru að baki... en þetta er jákvæður ekki. Ég er búinn að hugsa mikið síðustu daga og jafnvel síðustu ár um okkar samband og er búinn að sjá svo sterkt hvað við augljóslega höfum haft mikil áhrif á hvor annan.

Ég held að það sé ekki til sú manneskja í heiminum sem ýtti jafnmikið undir þekkingarþorsta og gagnrýna hugsun hjá mér og þú. Ég man eftir ótal samræðum hjá okkur um allt milli himins og geima og eiginlega þar fyrir utan. Á öllum tímapunktum sem það skipti máli að þú kæmir til mín eða sæktir mig varstu þarna... í gegnum alla þessa undarlegu missistíma sem ég þurfti að taka út. Sérstaklega man ég eftir þegar mamma dó og þú komst að sækja mig til að fara með mig í bíó á stórvirkið „Broken Arrow“ (ahemm). Þetta var í fyrsta skipti í kringum þetta ferli sem ég gleymdi mér og gat notið augnabliksins. Ég leit yfir til þín í miðri mynd og sá eitt tár renna niður kinnina á þér, sem er myndlíking fyrir mér af styrknum sem þú varst að sýna gagnvart mér í þessum ömurlegu aðstæðum. Í stað þess að þetta drægi mig til baka í einhverja eymd teygði ég mig að þér og við föðmuðumst og ég fann svo mikla ást og virðingu gagnvart því hvernig mér hlyti að líða.

Það mun líka alltaf vera stór hluti af lífi mínu og virðingu gagnvart þér að þú tókst Andrés bróðir minn alltaf inn á sama stigi og mig sem þinn eigin son og tókst hann með hvert sem er hvenær sem er. Fúsi frændi fékk meira að segja oft að fljóta með og sérstaklega man ég eftir ferðinni á „Seven“ í Laugarásbíó þar sem mér hefur aldrei brugðið meira á ævinni og tókst að henda öllu poppinu og kókinu mínu yfir greyið manninn fyrir aftan mig. Eftir að þú baðst hann afsökunar og hann gerði sér grein fyrir því að þetta var bara eitthvert barn hallaðir þú þér að mér og sagðir: „Þetta var fyndið.“ Ég mun aldrei gleyma öllum okkar tímum og hversu sérstakur þú varst. Ferðin til Þýskalands, heimsóknir til ömmu, heimsóknir til Kollu systur, allar bíóferðirnar okkar og hjólaferðirnar um miðbæinn þegar mér fannst hann vera annar heimur. Ég er ríkari í lífinu eftir þetta allt saman og ég gæti ekki verið ánægðari þegar ég spái í því í alvörunni. Ég er feginn að bera þín gen áfram og elska að þú hafir verið faðir minn og gefið mér frábæra systur, vitneskju og upplifanir. Ég veit að engum verður betur tekið á móti og trúi því eindregið að þú sért núna með öllum að gera einhverja algjöra snilld. Ég veit að þú heldur áfram að dreifa vitneskju og reynslu hinum megin og segi bara til hamingju þið þar. Ég elska þig núna, alltaf og takk fyrir allt. 

Þinn sonur, Bjarni Jónsson.

------------------------------------------------------------------

Nú erum við að kveðja tengdaföður minn Jón Rafn Jóhannsson, aðeins 72 ára að aldri. Tengdafaðir minn var einstaklega vel gefinn maður og ákaflega víðlesinn. Þrátt fyrir að hafa verið mikið veikur í mörg ár og í raun ekki komist út af heimili sínu í nokkur ár þá var hann alltaf glaður og jákvæður þegar maður talaði við hann eða kom í heimsókn.

Fyrr á árum starfaði hann við landmælingar, kortagerð og grafíska hönnun. Seinni árin þegar hann var orðinn veikur hafði hann alltaf nóg við að vera, en hans helstu áhugamál voru trúmál og skútur. Hann nýtti því tímann sem hann hafði við að þýða og skrifa trúarlegar bókmenntir af hinum ýmsu tungumálum yfir á íslensku, en hann talaði einhver 12 tungumál sem hann lærði af bókalestri og sjónvarpi. Margar bækur sem hann þýddi hafa verið gefnar út, en höfundarlaunin gaf hann óskipt til systranna í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Af einhverjum ástæðum hafði hann tekið upp kaþólska trú um þrítugsaldurinn og sinnti hann trúnni upp frá því. Hann skrifaði meðal annars margar greinar á vefinn kirkja.net. Auk þessa hélt hann úti vefsíðu um hitt áhugamálið sitt, íslenska skútuútgerð fyrr á öldum. 

Jón var fæddur á Siglufirði, en flutti þaðan um 7 ára aldur, en alla tíð taldi hann sig vera Siglfirðing og við hvert tækifæri sem gafst þá snéri hann tali okkar að Siglufirði. Ég held að honum hafi fundist minn stærsti kostur vera að ég var líka Siglfirðingur. Einnig fylgdist hann stoltur með öllu sem barnabörnin voru að fást við, hvort sem það voru íþróttir, skóli, vinna eða hvað annað.

Það var alltaf gaman að heimsækja Jón og ræða við hann um allt á milli himins og jarðar, enda fylgdist hann ákaflega vel með því sem var að gerast í heiminum og hafði á því ákveðnar skoðanir. 

Þín verður sárt saknað af fjölskyldu þinni. 

Steingrímur Sigfússon

-----------------------------------------------------------------

Elsku afi, við þökkum fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum með þér. Þær hefðu mátt vera miklu fleiri, en vegna veikinda þinna urðu þær ekki eins margar og við vildum. Við gleðjumst samt við allar þær góðu minningar sem við eigum.

Takk fyrir allt, afi, við söknum þín, guð blessi þig og geymi.

Eva Dögg, Brynjar Daði, Sindri Leó, Anna María og Steingrímur Magnús