Gamlar jólaseríur, heklaðar dúllur, stórisar, postulínsbrot og trjábútar er meðal þess sem gengur í endurnýjun lífdaga á sýningunni Endurunnið jólaskraut í húsakynnum Handverks og hönnunar á Eiðistorgi. Þar er Fjóla Guðmundsdóttir starfsmaður.

„Við setjum stundum upp sýningar í þessu rými. Höfum yfirleitt óskað eftir einhverjum ákveðnum hlutum á þær. Bleikt var, til dæmis, skilyrðið sem við settum fyrir októbersýninguna, þá vorum við eingöngu með bleika muni. Núna báðum við um jólaskraut úr efnum sem hefðu gegnt öðru hlutverki áður, þannig að um endurnýtingu væri að ræða. Það voru þó nokkrar tillögur sem komu inn, níu þeirra voru valdar frá sjö sýnendum og hér kennir ýmissa grasa. Þetta er allt til sölu nema tvennt sem er í einkaeigu,“ upplýsir hún.

Við skoðum hvern hlut af gaumgæfni, þar er bæði um hugvit og vandað handbragð að ræða. Gamalt útsaumsverk verður að skermum á jólaseríu, sniðaarkir sem fylgdu tískublöðum eru orðnar að bréfbátum í sama hlutverki. Útklippt og stífað skraut til að hengja upp í glugga er gert úr gömlum stórisum sem voru á hverju heimili.

Nú erum við komnar út að glugga, þar hanga nokkrir jólahringir. Heklaðar dúllur sem búið er að bródera í, meðal annars fræhnúta og festa á litlar kúlur í einum kransinum eru augnayndi. Niður úr öðrum hanga langar, mislitar perur. „Margir sem hafa komið hingað kannast við búbbluseríur sem voru allsráðandi upp úr 1960, í þeim voru þessar perur með vökva inni í sem búbblaði þegar kveikt var á þeim. Fólk tekur andköf þegar það sér þær. Ein konan sagði. „O, það var til svona í næsta húsi, mikið öfundaði ég fólkið þar!“

Á veggjum eru líka listaverk, eitt er til dæmis úr matarprjónum og grillpinnum og útsaumuð jólakort fá framhaldslíf á hjörtum gerðum úr dúkum og damaski. Sýningin er opin á virkum dögum en ekki um helgar.

Verk eftir Sigurborgu Stefánsdóttur, unnið úr matarprjónum og grillpinnum.
Auður Bergsteins á þessar undurfögru útsaumuðu og hekluðu jólakúlur.
Hjörtu með myndum úr gömlum jólakortum, gerð af Láru Magneu Jónsdóttur.