FKA Nýir Íslendingar er nefnd innan Félags kvenna í atvinnulífinu sem var sett á laggirnar 2020. Nefndin beitir sér fyrir því að byggja brú milli kvenna af erlendum uppruna og íslenskra kvenna og stuðlar að því að konur af erlendum uppruna geti myndað gott tengslanet á Íslandi. Í dag stendur nefndin fyrir pop-up jólamarkaði í Granda Mathöll sem stendur yfir milli 17 og 20.

„Á markaðnum ætlum við að koma með vörurnar okkar, listaverk og fleira til að kynna það fyrir fólki,“ segir Grace Achieng, formaður nefndarinnar. „Við viljum endilega að ólíkt fólk úr samfélaginu komi saman til að stuðla að sýnileika og til að byggja upp tengslanet.“

Á markaðnum verður meðal annars að finna vörur frá fyrirtæki Grace, Grace­landic, tískuvörumerki með kvenfatnaði og fylgihlutum sem byggja á sjálfbærum lífsstíl og einfaldleika. Einnig verður hægt að nálgast litrík listakerti úr endurunnu vaxi frá Birna Kerti, en Birna Sigurðardóttir sem stendur þar að baki er alin upp í Bandaríkjunum og nýflutt aftur til Íslands. Þá verður listakonan Michelle Bird með litrík listaverk sín til sýnis.

Nefndin Nýir Íslendingar samanstendur alls af sex konum og segir Grace hópinn samheldinn.

„Þegar nefndin var stofnuð 2020 stóð Covid yfir og það tókst ekki að gera mikið,“ segir hún.

„Í dag viljum við brúa bilið á milli kvenna af erlendum uppruna og íslensks samfélags. Mér líður eins og við séum að gera margt sem við þurfum að leyfa samfélaginu að sjá með viðburðum á borð við þennan. Þannig getum við byggt upp sterkara samfélag hér á Íslandi.“