Þótt fyrstu jóla­kortin sem vitað er um teygi sig aftur til 17. aldar var það þann 9. desember 1843 sem fyrsta jóla­kortið sem selt var al­menningi var búið til. Enski teiknarinn John Callcot Hor­sl­ey hafði hannað kortið nokkrum mánuðum fyrr og seldust 2.050 ein­tök. Kortið, sem var hand­litað og stein­þrykkt, þótti sumum hneisa en þar mátti sjá mynd af fjöl­skyldu og ungu barni að fá sér vín saman. Á hvorri hlið kortsins mátti sjá góð­verk þar sem fá­tækum var færður matur og klæði. Á­letrunin á kortinu var: „Gleði­leg jól og far­sælt komandi ár.“

Í dag eru jóla­kort ó­missandi hefð á jólunum og má sem dæmi nefna að í Banda­ríkjunum eru yfir tveir milljarðar jóla­korta sendir ár hvert. Á Ís­landi fóru jóla­kortin fyrst að birtast undir lok 19. aldar. Í Þjóð­ólfi 1888 aug­lýsir Bóka­verzlun Sig­fúsar Ey­munds­sonar til að mynda jóla­kort sem komið höfðu með síðasta póst­skipi á 5-50 aura og í Æskunni eru aug­lýst jóla- og ný­ár­skort árið 1897. Kortin voru venju­lega dönsk eða þýsk en jóla­kort höfðu fljótt orðið að vin­sælum sið í Evrópu og Norður-Ameríku.

Það var svo ekki fyrr en eftir alda­mót sem byrjað var að gefa út ís­lensk jóla- og ný­ár­skort. Þar voru fyrst um sinn aðal­lega myndir af lands­lagi eða ein­stökum kaup­stöðum. Síðar meir komu teiknuð kort til sögunnar. Á Þjóð­minja­safni Ís­lands er varð­veitt jóla­kort með jóla­mynd frá árinu 1910, gefið út af Frið­finni L. Guð­jóns­syni en í safn­búðinni má ein­mitt nálgast endur­prent af gömlum ís­lenskum jóla­kortum.

Skíðamaður, teikning eftir Stefán Jónsson, 1938.
Mynd/Þjóðminjasafn Íslands

Haldið í hefðirnar

Þótt jóla­kortin hafi sprungið út í vin­sældum á sínum tíma hefur netið og tölvu­póstur dregið tals­vert úr vin­sældum þeirra. Eru þau barn síns tíma?

„Bréfa­sendingar eiga sér langa sögu hjá Póstinum og þótt þær séu á undan­haldi eru enn ein­hverjir sem halda í þá fal­legu hefð að senda hand­skrifað jóla­kort til vina og ættingja, svo enn er þessi skemmti­legi siður líf­seigur,“ segir Þór­hildur Ólöf Helga­dóttir, for­stjóri Póstsins, og bætir við að miklar breytingar hafi orðið á póst­þjónustu á síðari árum. „Fjöldi bréfa­sendinga hefur dregist saman um hátt í 90 prósent frá alda­mótum en á sama tíma hafa pakka­sendingar marg­faldast.“

Þá er enn þá hópur sem kýs að senda jóla­kort.

„Það minnkar hópurinn sem sendir jóla­kort með Póstinum, en þó eru alltaf ein­hverjir sem halda í þessa skemmti­legu og rómantísku hefð og senda sínum ást­vinum hand­skrifaðar jóla­kveðjur jafn­vel með mynd af börnum sínum og við­burðum innan ársins. Undan­farin ár hefur dreifing jóla­korta ekki leitt til aukins á­lags í okkar kerfum,“ segir Þór­hildur Ólöf.

Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins, segir béfasendingar eiga sér langa sögu hjá Póstinum. Þótt þær séu á undanhaldi séu enn einhverjir sem haldi í þá fallegu hefð að senda handskrifað jólakort til vina og ættingja.
Mynd/Bernhard Kristinn