Þótt fyrstu jólakortin sem vitað er um teygi sig aftur til 17. aldar var það þann 9. desember 1843 sem fyrsta jólakortið sem selt var almenningi var búið til. Enski teiknarinn John Callcot Horsley hafði hannað kortið nokkrum mánuðum fyrr og seldust 2.050 eintök. Kortið, sem var handlitað og steinþrykkt, þótti sumum hneisa en þar mátti sjá mynd af fjölskyldu og ungu barni að fá sér vín saman. Á hvorri hlið kortsins mátti sjá góðverk þar sem fátækum var færður matur og klæði. Áletrunin á kortinu var: „Gleðileg jól og farsælt komandi ár.“
Í dag eru jólakort ómissandi hefð á jólunum og má sem dæmi nefna að í Bandaríkjunum eru yfir tveir milljarðar jólakorta sendir ár hvert. Á Íslandi fóru jólakortin fyrst að birtast undir lok 19. aldar. Í Þjóðólfi 1888 auglýsir Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar til að mynda jólakort sem komið höfðu með síðasta póstskipi á 5-50 aura og í Æskunni eru auglýst jóla- og nýárskort árið 1897. Kortin voru venjulega dönsk eða þýsk en jólakort höfðu fljótt orðið að vinsælum sið í Evrópu og Norður-Ameríku.
Það var svo ekki fyrr en eftir aldamót sem byrjað var að gefa út íslensk jóla- og nýárskort. Þar voru fyrst um sinn aðallega myndir af landslagi eða einstökum kaupstöðum. Síðar meir komu teiknuð kort til sögunnar. Á Þjóðminjasafni Íslands er varðveitt jólakort með jólamynd frá árinu 1910, gefið út af Friðfinni L. Guðjónssyni en í safnbúðinni má einmitt nálgast endurprent af gömlum íslenskum jólakortum.

Haldið í hefðirnar
Þótt jólakortin hafi sprungið út í vinsældum á sínum tíma hefur netið og tölvupóstur dregið talsvert úr vinsældum þeirra. Eru þau barn síns tíma?
„Bréfasendingar eiga sér langa sögu hjá Póstinum og þótt þær séu á undanhaldi eru enn einhverjir sem halda í þá fallegu hefð að senda handskrifað jólakort til vina og ættingja, svo enn er þessi skemmtilegi siður lífseigur,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins, og bætir við að miklar breytingar hafi orðið á póstþjónustu á síðari árum. „Fjöldi bréfasendinga hefur dregist saman um hátt í 90 prósent frá aldamótum en á sama tíma hafa pakkasendingar margfaldast.“
Þá er enn þá hópur sem kýs að senda jólakort.
„Það minnkar hópurinn sem sendir jólakort með Póstinum, en þó eru alltaf einhverjir sem halda í þessa skemmtilegu og rómantísku hefð og senda sínum ástvinum handskrifaðar jólakveðjur jafnvel með mynd af börnum sínum og viðburðum innan ársins. Undanfarin ár hefur dreifing jólakorta ekki leitt til aukins álags í okkar kerfum,“ segir Þórhildur Ólöf.
