Hátíðarandinn er allsráðandi í Árbæjarsafni þessa dagana í aðdraganda jóladagskrárinnar sunnudagana 11. og 18. desember. Viðburðirnir eru almennt vel sóttir, en í ár varð safnið þeirrar gæfu aðnjótandi að hljóta styrk frá Betra hverfi í Reykjavík og verður dagskráin í ár því enn veglegri auk þess sem aðgangur verður ókeypis.

„Við erum að reyna að skapa notalega stemningu frá ysi og þys jólastússins,“ segir Helga Maureen Gylfadóttir, deildarstjóri á safninu. „Starfsfólkið er klætt upp í búninga og einhverjir jólasveinar skrallandi út um allt.“

Á dagskránni í ár verður boðið upp á fasta liði og verður að vanda hægt að fara í tímaferðalag og upplifa jólin í húsunum frá mismunandi tímum, allt frá 1846 til 1959. Þá verður hægt smakka góðgæti á borð við möndlur, hangikjöt og laufabrauð auk þess sem björgunarsveitin mætir á svæðið til að selja jólatré og eitt húsið hýsir jólamarkað fyrir líknarfélög.

Þá verður einnig nóg af nýjungum, þar á meðal aðkoma jólafólanna – jólasveinanna sem náðu ekki inn hjá Jóhannesi úr Kötlum.

„Það er búið að setja upp umboðsskrifstofu jólasveinanna, fyrir Giljagaur, Stekkjarstaur og þá félaga,“ segir Helga Maureen. „En hinum megin verða jólafólin á borð við Flotnös, Reykjasvelg, Kleinu­sníki og fleiri. Þau eru að reyna að ná sér í smá bisness en hafa aðeins verið að misskilja þetta.“

Jólafólin fá þannig kærkomna kynningu á safninu í ár og bendir Helga Maureen á að mögulega verði hægt að bóka einhver þeirra með afslætti til að skemmta á jólaböllum í ár.

Pólsk jól

Gestum stendur einnig til boða að kynna sér dæmigerð pólsk jól.

„Við höfum verið í samtali við pólska samfélagið á Íslandi um það hvað sé líkt og ólíkt með jólahaldi landanna tveggja,“ segir Helga Maureen. „Við eigum nefnilega feikimargt sameiginlegt.“

Líkt og á Íslandi gengur jólahátíðin í garð í Póllandi á aðfangadag en þar er sú hefð að lagt sé á borð fyrir óvæntan gest.

Heimafólkið í Árbæ er duglegt að skera út laufabrauð. Mynd/Roman.

„Hjá sumum er það líka gert fyrir einhvern sem er fjarstaddur eða látinn en getur þá verið með í borðhaldinu í anda,“ útskýrir Helga Maureen. „Svo er hefð fyrir því í Póllandi að það sé borðaður fiskur á aðfangadagskvöldi því föstunni lýkur ekki fyrr en á miðnætti.“

Þá hafa margir tólf rétta máltíð sem er ýmist táknrænt fyrir postulana tólf eða mánuðina. Séu þeir allir borðaðir þá verður nýja árið gott.

„Stundum eru hlutir eins og sósan og gosið talið sem heill réttur,“ svarar Helga Maureen spurð út í það hvort tólf réttir sé ekki heldur vel í lagt. „Það er bara gaman að eiga þetta samtal því auðvitað búum við öll saman hérna.“

Að lokum hvetur Helga Maureen gesti til að bóka miða á dagskrána gjaldfrjálst á tix.is til þess að flæðið verði sem best. Hægt er að kynna sér dagskrána í heild á heimasíðu safnsins.