Það er mikið lagt í þessa tónleika,“ segir Jónína Aradóttir söngkona um viðburðinn Jól í Ósló sem haldinn verður á laugardaginn í Nordic Black Theater. Hún segir á þriðja tug manns munu koma fram, bæði fólk sem starfar við tónlist og hefur kórsöng og hljóðfæraleik að áhugamáli. Meðal nafna á söngskránni eru rokkarinn Eiríkur Hauksson og óperusöngvarinn Kolbeinn Jón Ketilsson og meðal hljóðfæraleikara er Gróa Hreinsdóttir.

„Flestir flytjendurnir búa í grennd við Ósló, til dæmis í Drammen sem er álíka langt frá borginni og Hveragerði er frá Reykjavík. Ég bý líka í nágrannabæ Ósló og er 45 mínútur í lest á æfingar,“ upplýsir Jónína. Hún kveðst ætla að taka eitt lag ein á tónleikunum og annaðhvort verði píanó með henni eða hljómsveit. „Ég syng lag sem heitir Það eru að koma jól eftir Magnús Kjartansson og Halldór Gunnarsson. Heyrði Guðrúnu Árnýju syngja það og fannst það svo geggjað. Svo tek ég dúett með henni Guðbjörgu Magnúsdóttur, hún var einu sinni í Frostrósum, mjög góð söngkona.“

Jónína segir að þetta sé annað árið í röð sem slíkir jólatónleikar Íslendinga séu haldnir í Ósló. Það hafi verið Gróa Hreinsdóttir, organisti í Drammen, og Ómar Friðriksson sem höfðu forgöngu um þá. „Ómar er frá Hvolsvelli. Ég kannast við hann þaðan, hitti hann svo í fyrra þegar ég var að flytja hingað og hann sagði strax: „Viltu kannski vera með á jólatónleikunum?“ Það var svo frábært því þá kynntist ég öllu tónlistarfólkinu á einu bretti og hitti marga Íslendinga meðal gesta.“

Tónleikasalurinn tekur 100 manns, að sögn Jónínu. „Við vorum með tvenna tónleika sama kvöldið í fyrra. Byrjuðum að selja á 9.00-tónleikana og bættum svo öðrum við. Þannig er það núna líka. Við syngjum á íslensku, ensku og norsku á þessum tónleikum. Fólki fannst rosa gaman í fyrra, líka þeim Norðmönnum sem komu.“

Jónína kveðst svo vera að fara, ásamt Guðbjörgu og Gróu Hreins, í jólatónleikatúr um Noreg. „Þar ætlum við að bjóða upp á íslensku jólalögin, eða íslenska texta við íslensk og norsk og sænsk lög, því Íslendingar hafa auðvitað samið texta við mörg slík.“ Spurð um tilvonandi tónleikastaði í ferðinni nefnir hún Bergen, Stavanger, Kristiansand og Þrándheim. „Þetta er bara prufa núna, verður vonandi árvisst. Fundum engan stað til að koma fram á í Tromsö en það gengur vonandi betur á næsta ári.

Ég held þetta verði rosa gaman. Við heyrðum í konum í Stavanger og Kristjansand. Þær voru strax til í að henda í kaffi og kökur, þannig að þetta verður svona eins og hjá konunum í sveitinni!“