Það eru greinilega margir Íslendingar á ferð um Ísland og við fáum ótal vink frá bílstjórum. Þjóðin er með okkur í liði og veðrið líka. Við höfum fengið frábærar móttökur alls staðar og fínan meðvind, segir Guðrún Gísladóttir sem er á áttunda og síðasta degi í hringferð um landið í dag á hjóli, með liði sínu Team Rynkeby á Íslandi. Tilgangurinn er að safna fé til styrktar alvarlega veikum börnum.

„Ferðin hefur gengið eins og í sögu. Við leiðarlok verða 850 kílómetrar að baki,“ lýsir Guðrún. Þetta er í fjórða sinn sem hún hjólar, hefur verið með í liðinu frá upphafi, 2017, og þekkir aðstæður. „Brekkur geta tekið í, en það erfiðasta er þó að sitja svona lengi á hörðum hnakk, fólk er komið með sár í nárann og blöðrur hér og þar, þó við séum í góðum buxum. Í undirbúningnum eru þó hjólaðir að minnsta kosti 2.500 kílómetrar.“

Guðrún segir liðið vilja hjóla sem minnst á þjóðvegi 1, því það geti skapað hættu. „Við veljum fallegar leiðir þar sem minni umferð er. Hjóluðum nú til dæmis Hvalfjörðinn, hring um Skagafjörð og frá munna Strákaganga að norðanverðu til Grenivíkur. Við fórum kísilveginn frá Mývatni út á Húsavík og til baka um Aðaldalinn. Hjóluðum um Ásbyrgi, á Kópasker og Þórshöfn og frá Neskaupstað um Austfirði.

Í gær var bara um eina leið að ræða, sunnan jökla. Við hjóluðum frá Breiðdalsvík til Djúpavogs, en keyrðum svo til Víkur með stoppum á leiðinni.“

Í liðinu í ár eru 55 manns en 40 í hringferðinni, 29 að hjóla og 11 í þjónustu. „Á Kia silfurhringnum, sem við endum á í dag, koma fyrri liðsfélagar inn í leiðirnar, þannig var það líka fyrir norðan,“ segir Guðrún.

„Þetta er dálítil fjölskylda, við söfnum styrkjum og féð sem safnast fer óskipt í málefnið, því við greiðum allt sjálf sem við eyðum, bæði búnað og uppihald.“