Það er mikið að gera hjá mér núna og margt í kortunum en ég er alltaf á leiðinni að fara að slappa af. Það verður bara aðeins að bíða,“ segir myndlistarkonan Arngunnur Ýr Gylfadóttir glaðlega. Hún opnaði fyrir skemmstu sýningu í galleríinu Veðri og vindi á Hverfisgötu 37 í Reykjavík – eða opnaði ekki – sýningarrýmið þar er þrír gluggar, þannig að listarinnar er notið utan frá.

Sýningin nefnist Hljóðaklettar og verður uppi út þennan mánuð. Arngunnur segir jarðlögin í landinu vera grunn hennar. „Ég elska grjót og að meðhöndla það og með leyfi Gljúfrastofu fékk ég að taka nokkra steina við Hljóðakletta sem eru einn magnaðasti staður á landinu, þar fer maður inn í miðja gíga sem Jökulsá hefur sorfið. En við úrvinnsluna ákvað ég að fara í hinn fjöruga stíl Cobramálaranna sem markar ákveðið tímabil í listasögunni.“

Listsköpun aðalstarf

Arngunnur Ýr kveðst hafa teiknað og málað frá því hún var eins árs og eiga sjö ára listnám að baki. Einnig hafi hún kennt listmálun bæði á Íslandi og á San Francisco-svæðinu, enda búi hún á báðum stöðum. „Listsköpun hefur verið mitt aðalstarf, svo hef ég haft leiðsögn sem hliðargrein á sumrin í 30 ár.

Starfið var auðfengið í byrjun því sá sem átti fyrirtækið sem ég sótti um hjá hafði verið fyrsti kærasti mömmu. Leiðsögustarfið stýrir list minni í þá átt að nota landslagið til að túlka tilveru okkar og smæð gagnvart stórum öflum náttúrunnar. Jarðfræðin og olíumálverkið eiga ýmislegt sameiginlegt. Ég tek að mér hópa frá náttúrugripasafninu Smithsonian og hef unnið með frábærum íslenskum jarðfræðingum svo ég er alltaf að læra eitthvað sem smitast yfir í verkin mín.“

Vinnustofur hér og þar

Nú er Arngunnur Ýr að koma sér upp tveimur vinnustofum. „Við hjónin keyptum sumarbústað í náttúruparadís við Hafnarfjörð og byggðum okkur síðan hús við hliðina, nú er ég að breyta gamla bústaðnum í glæsilega vinnustofu, þar hef ég Helgafellið fyrir augunum. Svo var ég að setja niður lítið hús við Heklurætur. Hallgrímur, gluggasmiður í Þykkvabæ, hannaði í það glugga og þaðan blasir Hekla við.“

Hún kveðst vera með vinnustofu líka úti í San Francisco. „Eiginmaðurinn, Larry Andrews, er bandarískur prófessor og kennir kvikmyndun við Kaliforníuháskóla. Við erum sitt á hvað og það hefur hentað mér að dvelja þar úti á veturna og hér heima á sumrin. Hann hyggst kenna í fjögur ár í viðbót við skólann en við erum búin að kaupa talsvert af landi á Havaí og ætlum að byggja þar. Í framtíðinni munum við búa þar og á Íslandi. Erum búin að reisa lítið hús við hafið og setja niður bananatré og alls kyns ávaxtatré.“

Málar hverfandi jökla

Ekki er allt upp talið sem þessi kraftmikla kona fæst við því hún er líka þátttakandi í samsýningu listafólks frá Finnlandi, Íslandi og Svíþjóð sem nefnist Norðrið og verður opnuð í Listasafni Árnesinga næsta laugardag, 19. september. Þar er sjónum beint að loftslagsbreytingunum. „Þarna er blanda af innsetningum, skúlptúrum, málverkum og ljósmyndum,“ segir Arngunnur Ýr sem hefur málað jökla Íslands, þekkir þá úr leiðsögumannsstarfi sínu og hefur fylgst með rýrnun þeirra. „Þar sem ég kom að jökli sem ung manneskja eru nú víða stór lón. Myndirnar eru óður til náttúru sem er að hverfa.“

Svínafellsjökull - mynd á sýningunni Norðrið sem opnuð verður í Listasafni Árnesinga á laugardaginn.