Meðal þeirra sem tóku þátt í göngunni var Sigrún Helgadóttir rithöfundur og líffræðingur sem gaf nýlega út ævisögu Sigurðar.

„Á þessum árum var ég að skrifa bók um þjóðbúninga og þegar ég var að segja útgefanda mínum á þeim tíma frá göngunni kom það upp að ævisaga Sigurðar hafði aldrei verið skrifuð,“ segir Sigrún og bætir við að það sé skrítið hvað fáar ævisögur náttúrufræðinga hafi komið út. „Niðurstaðan varð sú að mikilvægt væri að gefa út ævisögu Sigurðar og ákveðið að ég skrifaði hana. Mér leist nú ekkert á það því ég sagðist ekkert kunna að skrifa um fólk en ég lét sannfærast á endanum.“

Kveikti jarðfræðiáhuga Íslendinga

Sigrún þurfti þó að klára nokkur verkefni fyrst en nú tíu árum síðar kemur ævisaga Sigurðar út í tveimur bindum, 800 síður alls.

„Ég segi stundum að fyrra bindið sé um þann Sigurð sem fáir þekktu en að það síðara sé um þann Sigurð sem þjóðin dáði,“ segir Sigrún. „Fyrra bindið segir frá æsku hans og uppruna, námi erlendis og slíku.“

Sigrún segir að þrátt fyrir að hafa verið opinn og skemmtilegur hafi Sigurður verið um margt dulur og að fólk hafi ekki vitað margt um einkahagi hans.

„Hann var lengi í námi þar sem hann varð innlyksa í Svíþjóð í stríðinu. Hann kom ekki heim fyrr en 1945 og tveimur árum síðar gaus Hekla,“ segir Sigrún. „Þótt fólk hafi vitað af honum áður var það þarna sem þjóðin kynnist honum.“

Sigurður með hina frægu rauðu húfu í Kröflueldum 1980. Ef vel er gáð má sjá á húfunni brunagöt.
Mynd/Oddur Sigurðsson

Á þessum tíma höfðu þálifandi Íslendingar ekki séð hraun renna, segir Sigrún, ekki hafði verið eldgos í manna minnum, fyrir utan smágos fjarri byggð og Kötlugosið sem var undir jökli 1918.

„Ég vil halda því fram að Sigurður hafi þarna mótað þann jarðfræðiáhuga sem Íslendingar hafa í dag,“ segir hún. „Það hefði verið auðvelt að skapa ótta og skelfingu í kringum þessi eldsumbrot en Sigurður lagði áherslu á hvað þetta væri merkilegt og skemmtilegt. Hann tók ógrynni af myndum, þar á meðal fyrstu litmyndir sem teknar voru af eldgosi á Íslandi, og fólk flykktist á myndakvöld sem hann hélt, enda fyrir daga sjónvarps.“

Í kjölfarið varð hvert eldgosið á fætur öðru þar sem Sigurður var alltaf með puttann á púlsinum. „Hann sagði þannig frá að fólk varð forvitið um efnið og hann varð fyrir vikið að eftirlæti fjölmiðlamanna,“ segir Sigrún.