Þegar sólin hafði kastað fyrstu geislum sínum á sumardaginn fyrsta og allt leit vel út með veður til siglinga var eins og dimmdi af nóttu – ský fylltu himinhvolfið – þegar fréttist um atburði næturinnar. Jafnvel fuglarnir sem við höfðum talað svo oft um hve syngju glaðlega fagnandi sumri á þessum árstíma – þögnuðu.

Grásvartur veruleikinn tók völdin í sálum félagsmanna Snarfara eftir því sem leið á daginn og fréttir skýrðust.

Gamlir menn grétu.

Jakob hafði farist af slysförum snemma nætur við prufukeyrslu báts sem hann hafði verið að standsetja fyrir einn okkar félagsmanna sem þegar hafði fundið lyktina af vorinu og hugðist njóta blíðunnar á sumardaginn fyrsta.

Jakobi Magnússyni kynntist ég fyrir næstum 20 árum. Jakob var ekki fullkominn – frekar en ég. Við deildum um breyskleika hvor annars. Árin frá 2015 til 2017 voru undirlögð af slíkum deilum.

Síðla árs 2017 fyrirgaf ég þér þína bresti og þú mátt vita það nú að ég gladdist mjög þegar ég hringdi til þín frá útlöndum – þá er þú áttir aðeins fjóra daga eftir af þessu jarðlífi – þegar þú gerðir mér það ljóst að þú hafðir fyrir löngu fyrirgefið mér mína. Ég hlakkaði til áranna sem kæmu – með þér í þessum heimi.

Þú varst mikill, sterkur og sérstakur persónuleiki. Þrátt fyrir öldugang í lífinu talaðir þú aldrei illa um nokkurn mann. Þú varst maður sem lagðir þig fram við að gera aðra ánægða í kringum þig og fórst yfirleitt alla leið til að ná því markmiði. Þegar markmiðinu var náð – og þessi eða hinn komst á sjó – þá var eins og það væri það eina sem skipti máli. Það var alltaf erfitt að koma aurum að þér.

Um vinnuna segir Kahlil Gibran í Spámanninum í þýðingu Gunnars Dahl

„Þegar þið vinnið, eruð þið hljóðpípa, sem
breytir nið daganna í söng.
Og hver ykkar vill sitja þögull og hljóður
Í hinum samstillta kór?
Alltaf hefur ykkur verið sagt, að vinnan
sé bölvun og erfiðið ógæfa.
En ég segi ykkur, að vinna ykkar lætur
fegursta draum jarðarinnar rætast, –
draum, sem ykkur var í öndverðu ætlað
að gera að veruleika; því er vinna ykkar
ástaróður til lífsins, og að sýna í verki ást.“

Þú varst á hlaupum allan daginn – til að sýna í verki ást. Stundum komstu ekki yfir allt sem þú ætlaðir þann daginn og stundum ekki heldur hinn. Þú – á ferðinni – sást vandamál okkar og oft gaukaðir þú að okkur lausn á vandamálinu þó að við vissum jafnvel ekki að þú hafði komið auga á það. Jafnvel kom sérsmíðaður lykill eða verkfæri yfir öxlina á þér á leiðinni fram hjá – með leiðbeiningum.

Í hvert sinn er við komum á athafnasvæði Snarfara varst þú fyrsti eða annar maður sem við sáum. Annaðhvort við græna skúrinn eða á fullri ferð eftir einhverri bryggjunni.

Það verður erfið aðkoma til framtíðar að sjá þig ekki þar – í lopapeysunni eða jakkanum.

Kobbi – Við söknum þín öll. Dagarnir frá sumardeginum fyrsta hafa verið okkur og félaginu mjög erfiðir. Það er söknuður í gangi. Við vonum að eitthvað sé til í því að í fjarska sé ljós. Og við vonum að þú hafir kvatt sársaukalaust – og takir á móti okkur þegar við komum.

Því gamlir menn gráta enn.

Undirritaður vill færa nánustu fjölskyldu Jakobs Magnússonar, eiginkonu, dóttur og systkinum innilegustu samúðarkveðjur.

Jóhannes Valdemarsson