Íslensk málnefnd hefur stundum sent frá sér áminningar en hún vill ekki bara vera neikvæð heldur líka benda á það sem vel er gert íslenskunni til eflingar, segir Ármann Jakobsson, formaður nefndarinnar. Tilefnið er tvær viðurkenningar sem nefndin veitti nýlega og snerta báðar fjölmiðlun. Annars vegar útvarpsþáttinn Nýjar raddir og hins vegar erlenda streymisveitan Viaplay.

„Alexander Elliot var með þáttinn Nýjar raddir í sumar á Rás 2. Þar var hann með viðtöl við innflytjendur sem allir töluðu íslensku. Málnefndinni fannst þátturinn í anda okkar boðskapar, að lyfta undir það að fólk sem hér býr og starfar læri tungumálið. Baldvin Þór Bergsson dagskrárstjóri tók við verðlaununum því Alexander var í sóttkví,“ segir Ármann og snýr sér að streymisveitunni Viaplay. Segir að þar séu þýðingar regla en ekki undantekning, öfugt við til dæmis Netflix. „Þessar streymisveitur lúta ekki íslenskum lögum, því skiptir máli að almenningur halli sér að þeim sem bjóða upp á íslenskan texta. Þetta er svipað og ef maður vill hafa búð í hverfinu þá verður maður að versla við hana.“

Það var Hörður Magnússon sem veitti verðlaunum Viaplay viðtöku. Ármann segir hann hafa unnið fyrir fyrirtækið og talað fyrir því það hefði íslensku með sínu efni. „En fyrirtækið er ekki með neinn fastan fulltrúa hér, sem segir okkur sitthvað um efnisveitur. Það er engin skrifstofa á Íslandi, ekkert númer á Íslandi sem hægt er að hringja í og enginn sem svarar tölvupósti fyrir þær á Íslandi. Þó nær Viaplay að vera með íslenskan texta og það er lofsvert.“