„Ég hef sagt við er­lenda vini mína að á­hugi Ís­lendinga á eigin tungu­máli sé ó­trú­legur,“ segir Arnar Eggert Thor­odd­sen fé­lags­fræðingur sem flytur fyrir­lestur um ís­lenska tungu og sam­fé­lags­miðla í Þjóð­minja­safninu í dag. „Við erum eins og gaurinn sem er í hljóm­sveit og er alltaf að leyfa vinum sínum að heyra eigin tón­list í partíum um helgar. Þegar ein­hver spyr hvernig best sé að þýða eitt­hvað stökkva venju­lega allir til. Mér hefur alltaf þótt at­hyglis­vert hvað við erum öll miklir nördar þegar kemur að þessu.“

Fyrir­lestur Arnars byggir á nám­skeiðinu Sam­fé­lags­miðlar sem hann kennir við Há­skóla Ís­lands. Þar er meðal annars skoðað hvernig sam­skipti á milli ein­stak­linga og hópa eiga sér stað á miðlum á borð við Face­book og Twitter.

„Eru hlutirnir að verða kaldari, ó­per­sónu­legri og dóna­legri en áður eða getum við hugsað þetta þver­öfugt?“ veltir Arnar fyrir sér. „Erum við kannski að draga fram sam­skipta­getu í fólki sem átti erfitt með að tjá hluti í raun­heimum? Það er mikið af sið­ferðis­legum pælingum þarna í raun, hvernig mann­eskjur við viljum vera þegar við eigum í svona miklum raf­rænum sam­skiptum.“

Frelsi frá fas­ismanum

Að­spurður um þróun ís­lenskrar tungu á tímum sam­fé­lags­miðla segir Arnar að það sé mis­jafnt eftir því hvaða miðla sé verið að skoða, og hvaða not­endur.

„Eitt af því sem ég er á­huga­samur um er það hvernig tjáknin eru að koma meira og meira inn,“ segir hann. „Svo hafa ís­lensku-fas­istar senni­lega miklar á­hyggjur af stöðu tungu­málsins þarna inni, hvernig hlutirnir eru að styttast og slettast.“

Sjálfur hefði Arnar einu sinni talist mál­fars­fas­isti en hann segir að Ei­ríkur Rögn­valds­son ís­lensku­fræðingur hafi frelsað sig.

„Skrif hans höfðu mikil á­hrif á mig. Hvernig tungan þróast eðli­lega, hvernig hún er fyrst og síðast tól og hvað sé rétt og rangt blasi ekki alltaf við. Ég á honum mikið upp að unna og í dag er ég poll­ró­legur yfir þróun málsins,“ segir hann. „Ef sam­fé­lags­miðlum er rétt beitt er beint nota­gildi af þeim fyrir ís­lenska tungu. Face­book-hópar á borð við Þýðingar í fé­lags­vísindum eru dæmi um mjög sér­tækan stuðning og lausn sem fólk nýtir sér mjög mikið. Það er ekki allt á leið til hel­vítis á fyrsta far­rými eins og afi minn kær sagði oft.“

Fyrir­lesturinn hefst klukkan 12 í fyrir­lestrar­sal safnsins en einnig má hlýða á hann í gegnum YouTu­be-rás safnsins.