Nýlega var birt íðorðasafn fyrir prjón á netinu undir vefslóðinni idord.arnastofnun.is. „Markmiðið er að samræma orðanotkun innan fagsins, meðal annars vegna útgáfu á bókum og birtinga á netinu, en líka hins talaða máls,“ segir Guðrún Hannele Henttinen, kaupmaður og prjónkennari. Hún stendur að ókeypis kynningu á íðorðasafninu í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins milli klukkan 12.00 og 13.30 á laugardaginn, ásamt Ásdísi Jóelsdóttur og Herborgu Sigtryggsdóttur. Bendir á að íðorðasafnið varði ekki bara afmarkaðan sérfræðingahóp, heldur almenning. En hvernig kemur safnið fólki að notum?

„Ef einhver er að lesa uppskrift og skilur ekki hvað í henni stendur, þá er hægt að fara inn í íðorðabankann, setja orðið inn og kalla fram skilgreiningu á því. Við vonum líka að safnið opni augu fólks fyrir því að til eru íslensk orð yfir flest.“

Guðrún segir þá þróun hafa orðið á undanförnum árum að erlendar uppskriftir flæði yfir, því tileinki fólk sér enskt prjónamál og íslensku orðin tapist. „Við höfum svolítið verið í nýyrðasmíði og líka dustað rykið af góðum og gildum íslenskum orðum sem hafa gleymst. Stundum hefur orðið hlé í áhuga á prjóni og íslenskri prjónabókaútgáfu, þá hendir það að orð lifa ekki milli kynslóða. Við getum nefnt orðið stuðlaprjón, sem var oft notað yfir það sem nú heitir brugðingur eða stroffprjón. Við viljum endurvekja orðið stuðlaprjón, það er svo lýsandi.“ Guðrún nefnir ensk orð yfir vinsælt prjón, broken rib, og mistake rib og segir orðið perlustuðla gott nýyrði yfir það. „Svo er klukkuprjón vinsælt núna en margir kalla það brioche. Klukkuprjón hefur ekki verið í tísku lengi svo ungt fólk þekkir það ekki, þannig slitnar þráðurinn.“

Íðorðasöfnunin hefur verið sjálfboðavinna hjá Guðrúnu og samstarfskonum. „Árnastofnun hefur verið með sérstakan starfsmann sem heldur utan um íðorðanefndir og þegar við hittumst þá erum við þar. Við höfum hist í fimm vetur, reglulega,“ lýsir hún. „Konur hafa verið svolítið að koma og fara í nefndinni, við höfum verið flestar fimm í einu, en við Ásdís og Herborg höfum brennandi áhuga á þessu og ætlum að halda áfram og taka fyrir fleiri greinar hannyrða.“