Ingibjörg Hjaltalín Jónsdóttir lætur af störfum í dag eftir 52 ár sem íþróttakennari í Melaskóla. Hún æfir golf og lætur ekki árin 71 aftra sér frá því að ganga Fimmvörðuháls eftir fáeina daga.

Ég var ákveðin í að hætta að kenna þegar ég yrði sextug en svo var ég ekki tilbúin þegar á átti að herða því mér fannst starfið svo skemmtilegt – og finnst það reyndar enn í dag. Fyrir nokkrum árum fór ég í hálfa stöðu sem íþróttakennari og tók að mér forfallakennslu í bekkjum, það finnst mér æðislegt, því fylgir svo mikil fjölbreytni. Hef líka verið að kenna sund,“ segir Ingibjörg Hjaltalín Jónsdóttir, íþróttakennari í Melaskóla, sem ætlar að taka skrefið í dag og segja skilið við ævistarfið. „Mér líður ekkert þannig að ég verði að hætta að vinna, en hef svo mörg áhugamál að ég veit að ég finn mér eitthvað að gera,“ segir hún bjartsýn.

Lítið fyrir kyrrsetu

Það virðist lítil hætta á að Ingibjörg leggist í kör þó hún hætti að kenna, því áhugamálin snúast mest um hreyfingu. Hún gengur reglulega á Esjuna með vinkonum sínum og svo hlaupa þær sér til heilsubótar þrisvar, fjórum sinnum í viku. Eru þær kannski að æfa fyrir maraþon? „Nei, en ég er búin að fara í nokkur maraþon og hlaupa Laugaveginn. Nú stefni ég á að ganga Fimmvörðuháls 19. júní, hef aldrei gert það áður og viðurkenni að hann stressar mig svolítið en ég ætla að fara.“

Svo kveðst Ingibjörg stunda skíðabrun á veturna. „Þar sem lyfturnar voru ekki opnar í vetur keypti ég mér gönguskíði og fór að iðka gönguskíðasport. Auk þess er ég í golfi. Hef alltaf átt frekar erfitt með að halda kyrru fyrir. Fæddist mánuði fyrir tímann og pabbi sagði einhvern tíma þegar ég var orðin rígfullorðin. „Þú flýttir þér í heiminn og hefur verið á spani síðan.“

Aðspurð segist hún aldrei slæm í liðum eða annars staðar í skrokknum. „Sem betur fer er ég mjög hraust og er þakklát fyrir það. Tek lýsi, D- og C-vítamín og hef fengið góð gen frá foreldrunum. Er núna stödd hjá mömmu sem er 99 ára og bráðhress.“

Tregablandin skólaslit

Skólaslit eru í Melaskóla í dag og þá hættir Ingibjörg formlega. Verður það ekki tregablandið? „Jú, hjá mér og vonandi hinum líka! Ég verð ægilega spæld ef þau verða ekki dálítið leið yfir þessu –læt sem ég sjái tár falla, þó þau verði ekki þarna! Ég hef samt örugglega verið leiðinleg á köflum, sérstaklega þegar ég var ung og óörugg sjálf. Þá var ég strangari en í dag, nú kann ég að halda virðingu en vera samt góð. Það eiga margir erfitt en ég gerði mér kannski ekki grein fyrir því.“

Ingibjörg segir dálítið skondið hvernig ævistarfið hófst. „Það vantaði svo marga íþróttakennara á landsbyggðinni og flestir skólafélagarnir úr Íþróttakennaraskólanum fóru þangað. En ég var nýtrúlofuð og vildi ekki út á land heldur var á biðlista í borginni og réði mig í verslunina Ellingsen. Þar byrjaði ég 1. september klukkan 9. Nokkrum mínútum seinna var hringt frá fræðslustjóra Reykjavíkur og mér boðin hálf staða í Melaskóla. Ég gekk út úr Ellingsen án þess að láta nokkurn vita. Veit ekki hvað kom yfir mig, þetta er svo ólíkt mér.“ Ertu að ljóstra þessu upp núna? „Já, ég vona að þetta fari ekkert lengra! En svona átti þetta að fara og mér hefur liðið afskaplega vel í Melaskóla. Þar hefur alltaf verið gott að vera.“