„Hér er góður starfsandi og skemmtilegt fólk. Hér á ég góða félaga,“ segir Ingólfur G. Pétursson sem fagnar í dag hálfrar aldar starfsafmæli hjá Orkuveitu Reykjavíkur og fyrirrennurum þar sem hann hefur alið alla sína starfsævi.„Nei, aldrei,“ svarar hann þegar spurt er hvort hann hafi aldrei orðið þreyttur eða leiður á vinnunni hjá OR síðustu 50 ár.

„Ég hef í gegnum tíðina verið í margvíslegum störfum en byrjaði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur sem verkamaður og vann við það lengi.“

Ingólfur hefur í seinni tíð séð um kaffistofu útivinnuflokka Veitna og hefur staðið þá vakt með slíkum sóma að kaffistofan er nefnd Ingólfskaffi.

„Sumir segja að þar sé að fá besta kaffi í húsinu,“ segir Ingólfur og bætir við að tilfinningin hafi verið góð þegar kaffistofan var nefnd eftir honum. „Ég var mjög hissa og ánægður þegar það var ákveðið.“

Hressandi kaffi

Ingólfur segir aðspurður að það sé alltaf líf og fjör á kaffistofunni. „Já, já, það er skemmtilegast á morgnana og í hádeginu því þá koma margir inn, fá sér kaffi eftir matinn og spjalla saman. Svo er líka oft líf og fjör í lok vinnudags þegar vinnuflokkarnir koma inn og fá sér tíu dropa eftir daginn.“

Ingólfur er ekki frá því að kaffidrykkjan hafi heldur aukist hjá OR í hans tíð. „Já, mér finnst það. Stundum hef ég ekki undan við að laga kaffi. Það þarf mikið kaffi ofan í allt þetta fólk og vinnuflokkarnir taka líka með sér kaffi í brúsa þegar þeir fara út. Ég hef aldrei tekið saman hversu mikið kaffi fer yfir daginn en það eru nokkuð margir lítrar.“

En hefurðu einhvern tímann lent í því að kaffið hafi klárast og verður ekki allt brjálað ef það gerist?

„Stundum kemur það fyrir að könnurnar tæmast en þá er ég fljótur að hella upp á aftur. En ef kaffið sjálft myndi klárast þannig að ég gæti ekki hellt upp á þá yrðu margir sárir. Ég myndi gefa þeim kakó eða vatn í staðinn.“

Heljarinnar veisla

Ingólfur og samstarfsfólk hans ætlar að gera honum hressilegan dagamun á stóru tímamótunum í dag og slá upp heljarinnar veislu sem verður eftir höfði kaffimeistarans sjálfs.„Það verður haldin heljarinnar veisla hér hjá OR og öllu starfsfólki er boðið,“ segir Ingólfur.

„Ég fékk að ráða hvað er á boðstólum og valdi brauðtertur, heitan brauðrétt og skúffuköku, eða allt sem mér finnst gott.“