Píanistinn Ingi Bjarni Skúlason kemur fram með tríói sínu í Fríkirkju Hafnarfjarðar í kvöld. Með honum verða Magnús Trygvason Eliassen á trommum og hinn færeyski Bárður Reinter Poulsen á bassa og spiluð verður frumsamin tónlist eftir Inga Bjarna.

„Ég hitti Bárð þegar ég var að spila í Þrándheimi 2013 á sýningu fyrir ung djassbönd á Norðurlöndunum,“ segir Ingi Bjarni um tilurð tríósins. „Við spjölluðum um að gera eitthvað saman og úr varð samstarf með Magnúsi Trygvasyni.“

Það var þó ekki fyrr en árið 2017 að tríóið kom saman og spilaði í Færeyjum og tók upp plötuna Fundur sem kom út árið eftir.

„Nú er kominn tími á að endurvekja þetta tríó aftur eftir Covid. Ég átti uppsafnað efni svo við verðum að spila nýtt efni sem við munum svo taka upp á plötu um helgina.“

Tónlist Inga Bjarna er lýst sem „undir áhrifum frá norrænum þjóðlögum og djassi með miklu spunaívafi.“

Erum við þá að tala um þjóðlagaskotinn djass eða djassskotin þjóðlög?

„Mér finnst alltaf gaman að segja að sé ekki endilega að semja djass eða þjóðlög þótt ég sé vissulega undir áhrifum frá báðu. Þetta blandast svo bara saman í einhvers konar graut,“ svarar Ingi Bjarni.

Tónleikarnir í Fríkirkju Hafnarfjarðar hefjast klukkan 20 í kvöld.