Oft hef ég nú verið að skrifa eitthvað, bæði minningar og smásögur og eina skáldsögu á ég líka en ljóðagerð hef ég mest fengist við á síðustu árum og Brot úr spegilflísum er fyrsta bókin,“ segir Ólöf Þórhildur Ólafsdóttir sem hefur búið í Strassborg í Frakklandi frá 1988, með manni sínum, Necmi Ergun, tyrkneskum að uppruna. Þar starfaði hún fyrir Evrópuráðið í 25 ár, lengi sem yfirmaður jafnréttismála og síðustu árin sem yfirmaður mennta-og menningarmála. Hún er nú komin á eftirlaun og tíu ára dóttursonur nýtur þess að amma hafi tíma.

Það vottar ekki fyrir frönskuhreim í rödd Þórhildar og í hinni nýju ljóðabók er móðurmálið tært sem lind. Bókin er skreytt listaverkum dótturinnar, Özden Dóru Clow og gefin út af forlaginu Skriðu á Hvammstanga. Áður hafa birst nokkur ljóð og ein smásaga eftir Þórhildi í Tímariti Máls og menningar.

Las mikið

„Ég var hagmæltur krakki og unglingur, enda voru amma og langamma oft með ljóð á vörum og ég las líka mikið, var eiginlega alltaf með bók. Sem unglingur í menntaskóla byrjaði ég að yrkja órímað – allt fór í skúffuna – en fór til Frakklands í nám þegar ég var tvítug, þá bara hvarf ég inn í frönskuna,“ segir Þórhildur og heldur áfram.

„Árið 2013 dóu bæði mamma og pabbi, líka tengdasonur minn og ein af bestu vinkonum mínum, Viljana. Upp úr því fór ég að yrkja aftur. Það var hollt fyrir mig. Mér fannst ég komast í tengsl við það liðna, skilja sjálfa mig betur og líka styrkja íslenskuna.“

Að heiman sextán ára

Æskuslóðir Þórhildar eru á Vatnsnesi, skammt utan við Hvammstanga. „Ég ólst upp á Ánastöðum, stóru sveitaheimili. Þar voru amma og afi, langamma, mamma og pabbi og við börnin vorum fimm,“ lýsir hún.

„Ég fór í skóla að Reykjum í Hrútafirði og eftir það í MH, þá var ég eiginlega farin að heiman, sextán ára, eins og títt var um krakka í sveitum. Samt er ég mjög tengd svæðinu.“

Þórhildur lærði frönsku og bókmenntafræði í Frakklandi og kenndi hvoru tveggja við Háskóla Íslands á níunda áratugnum, fyrst sem lektor og síðan dósent í frönskudeildinni. „Þá sá ég auglýst samkeppnispróf frá Evrópuráðinu, brá mér í það og náði því. Necmi, manninum mínum, fannst svolítið erfitt að búa á Íslandi, hafði verið í Frakklandi lengi og þar kynntumst við, ég sagði alltaf að ef ég fengi góða vinnu þar skyldi ég flytja. Það gekk upp.“

Fín viðbrögð

Þórhildur segir samstarfið við Birtu Ósmann í bókaútgáfunni Skriðu hafa verið yndislegt og kveðst hafa fengið fín viðbrögð við bókinni frá mörgum, í þeim hópi séu bæði bókmenntafræðingar og skáld. „En það er fjöldi ljóðabóka á markaðinum,“ segir hún. „Ég fylgist með þó ég sitji hér í 3.000 kílómetra fjarlægð!“