Bækurnar eru hér inni í íbúðarhúsi hjá mér og hingað kemur stundum fólk að skoða í hillurnar. Það selst samt langmest gegnum netið, á slóðinni bokmenntir.netserv.is“ segir Örn Þórarinsson, bóndi og bóksali á Ökrum í Fljótum. Hann rekur fornbókaverslun og giskar á að titlarnir þar séu hátt í tíu þúsund. „Þetta eru æði margir hillumetrar og svolítið í kössum líka,“ upplýsir hann.

Örn segir framboð af bókum mikið, enda sé útgáfan lífleg í landinu. „Það er oft verið að bjóða mér bækur sem fólk vill losna við, sérstaklega úr dánarbúum. Þeir sem hringja segja oft að unga fólkið hafi engan áhuga á að hafa bækur í kringum sig. Það er dálítið ný staða hjá bókaþjóðinni. Þegar ég var að alast upp fagnaði maður hverri bók.“ Hann kveðst kaupa valdar bækur, ef hann rekist á þær, ýmist vegna eftirspurnar eða bara af því að honum þyki þær merkilegar, þó ekki sé víst að öðrum finnist það. „Ég fer svolítið á nytjamarkaði og í fornbókabúðir, einkum á Akureyri. Góði hirðirinn í Reykjavík er aðeins of langt í burtu.“

Ýmsar bækur Arnar falla undir flokkinn gersemar, þar leynast bækur frá 18. og 19. öld. Hann nefnir eina sem nefnist Evangelisk kristileg Messu-Saungs og Sálma-Bók. Sú er frá 1801. „Hún er örugglega meðal fágætustu bóka minna, prentuð í Leirárgörðum,“ segir hann.

Bókaverslunina hefur Örn rekið á heimili sínu frá árinu 2006. „Ég var búinn að umgangast dálítið tvo menn sem voru mikið í bókum, Ágúst Jónatansson, frænda minn í Reykjavík og Jón Guðmundsson frá Bæ í Reykhólasveit sem var með bókaverslun á Siglufirði í nokkur ár og var útgefandi líka. Þeir höfðu áhrif á mig, það var nú upphafið að þessu.“

Guðrún frá Lundi fæddist í Fljótunum. Örn segir bækur hennar eftirsóttar á landsvísu. „Ég er búinn að senda þær út um allt, það vantar nú ekki.“ Annars er hann ekki með vinsældalista á takteinum. „Það er alltaf hópur sem sækist eftir ljóðabókum, ég held það séu mest safnarar sem jafnvel eru að spá í vissa höfunda. Sumir leita að einhverju sem afi þeirra eða amma hafa gefið út og það á ekki bara við um ljóðabækur, heldur um allt mögulegt,“ segir Örn og bendir á að auk þess að skoða bókalistann á vefsíðunni geti fólk hringt í hann eða skrifað tölvupóst á netfangið [email protected] ef það sé að velta fyrir sér hvort hann eigi bækur sem það vanti.

Örn hefur átt heima á Ökrum frá sex ára aldri og býr þar einn með 300 fjár á fóðrum – en ekkert hross og segist líklega vera eini bóndinn í Skagafirði sem engan hest eigi.

Það sér varla á dökkan díl í Fljótunum núna en Örn kveðst hættur að ganga á skíðum, eins og hann gerði á ungdómsárum. „Ég fer yfirleitt á bílnum eða dráttarvélinni það sem ég þarf. Hef ekki komist heim á bílnum þennan mánuð vegna snjóa og geymi hann við Siglufjarðarveg, eins og flestir hér í sveit, það er reynt að halda þeim vegi opnum flesta daga, þó það gangi misjafnlega. Þá fer ég á dráttarvélinni þangað, um eins og hálfs kílómetra leið. Þetta er með lengri tímabilum sem ég hef ekki getað haft bílinn nær mér. Það hefur bara gerst tvisvar á seinni árum, 1995 og 2012. En ég held það séu verri veður núna en þá voru. Það hefur oft verið mjög hvasst og þessi vetur hefur verið óvenju erfiður.“

Erni var að áskotnast Við hringveginn eftir Ara Trausta Guðmundsson þegar þessari mynd var smellt af. Myndir/Rebekka