Ég mun fyrst og fremst reyna að viðhalda þeirri öflugu og mikilvægu starfsemi sem Jarðhitaskólinn hefur sinnt síðustu fjóra áratugina, með áherslu á að viðhalda faglegum gæðum starfseminnar. Það á eftir að koma í ljós á næstu misserum hvort þörf verður á einhverjum áherslubreytingum,“ segir dr. Guðni Axelsson, jarðeðlisfræðingur, sem tók við starfi forstöðumanns Jarðhitaskólans um nýliðin áramót. Fráfarandi forstöðumaður var Lúðvík S. Georgsson, sem tók við skólanum árið 2013 af Ingvari Birgi Friðleifssyni.

„Undanfarin ár hafa um 25 nemendur fengið sex mánaða þjálfun hjá skólanum. Það að auki hefur skólinn stutt fimm meistaranema og einn doktorsnema árlega til jarðhitanáms við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík,“ segir Guðni. „Þá hefur fjöldi nema sótt námskeið skólans og samstarfsaðila hans í Kenýa og El Salvador. Frá því skólinn tók til starfa 1979 hafa 718 nemendur frá 63 þróunarlöndum lokið sex mánaða þjálfuninni.“

Guðni segir starfsmenn Jarðhitaskólans fimm, en mikill fjöldi kennara komi að þjálfuninni aðallega frá Íslenskum orkurannsóknum, háskólunum, verkfræðistofum og orkufyrirtækjum. Námið sé þríþætt. Í fyrsta lagi almenn kennsla um allt sem við kemur jarðhitarannsóknum, vinnslu jarðhita og nýtingu. Í öðru lagi sérhæfð þjálfun á tilteknu sérsviði og að síðustu verkefni sem unnin eru undir leiðsögn íslenskra sérfræðinga.

„Svo kemur skólinn að rekstri jarðhitanáms í El Salvador og á síðasta ári hófst rekstur náms í Kína í samvinnu kínverskra og íslenskra stjórnvalda, sem Jarðhitaskólinn kemur að.“

Guðni segir nemendurna koma frá ýmsum þróunarlöndum þar sem jarðhita er að finna, aðallega frá opinberum stofnunum og fyrirtækjum. Flestir séu með grunnmenntun í jarðvísindum og verkfræði og á aldrinum 25 til 35 ára.

„Oftast hafa nemendurnir einhverja innsýn í jarðhita og nýtingu hans, en stundum þó á frumstigi. Lengi hefur verið lögð mikil áhersla á jafnan hlut kvenna og karla í náminu,“ segir Guðni.

Hann segir breytingu hafa nýlega orðið á tengslum við Háskóla Sameinuðu þjóðanna. „Frá upphafi og til 2019 var skólinn tengdur Háskóla Sameinuðu þjóðanna, en ákveðið var að slíta því samstarfi vegna breyttra áherslna háskólans. Í staðinn mun skólinn tengjast Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, í gegnum GRÓ, Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu Íslands, ásamt Sjávarútvegs-, Landgræðslu- og Jafnréttisskólunum. Ekki er komin reynsla á samvinnuna við UNESCO, en hún verður að teljast ekki síður viðeigandi en samvinnan við Háskóla Sameinuðu þjóðanna, vegna aðkomu UNESCO að þróun mennta-, vísinda- og menningarmála í heiminum.“

Guðni segir fjármagn til rekstrarins vera hluta af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu en það fé komi að stærstu leyti frá utanríkisráðuneytinu.

„Framlag skólans síðustu fjóra áratugi hefur haft umtalsverð áhrif á uppbyggingu endurnýjanlegrar orkunýtingar í fjölda þróunarlanda og hefur starfsemi skólans þannig hjálpað löndunum að draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis og úr losun gróðurhúsalofttegunda. Starfsemi skólans hefur einnig verið mjög mikilvæg aðilum hér á landi sem sinna jarðhitarannsóknum og nýtingu,“ segir hann.

Guðni segir að í apríl verði stór alheimsjarðhitaráðstefna, World Geothermal Congress 2020, haldin hér á landi. „Þar verður þáttur fyrrverandi nemenda mjög veigamikill. Þeir eru meðal annars höfundar vel yfir 400 fyrirlestra eða veggspjalda, af rúmlega 1800 fyrirlestrum og veggspjöldum alls.“