Gangi allt að óskum mun InSight, geimfar Bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, lenda á plánetunni Mars í dag eftir sex mánaða ferðalag. Þetta verður fyrsti leiðangur NASA til rauðu plánetunnar síðan geimfarið Curiosity lenti þar í ágúst árið 2012.

Áður en InSight lendir á Mars þurfa vísindamenn á jörðu niðri að gera nauðsynlegar leiðréttingar á stefnu geimfarsins áður en það brýtur sér leið í gegnum örþunnan lofthjúp plánetunnar. Í kjölfarið fer geimfarið í gegnum flókna lendingarfasa en á endanum mun InSight lenda mjúklega á svæði sem nefnist Elysium Planitia og hefja fljótlega upp úr því vísindavinnu sína.

„Það er meira en áratugur liðinn síðan við hófum þetta verkefni, og í raun er mun lengra síðan ég fékk hugmyndina að InSight,“ segir Bruce Banerdt, yfirmaður leiðangursins. „En við verðum að vera þolinmóð eftir að InSight hefur lent á Mars, því að það mun taka tíma að fá niðurstöður úr fyrstu mælingum.“

Nokkrum dögum eftir lendingu, þegar öll kerfi hafa verið yfirfarin og fyrstu ljósmyndirnar hafa verið teknar, mun InSight koma þremur rannsóknartækjum fyrir á yfirborði plánetunnar. Þar á meðal er afar næmur jarðskjálftamælir sem mun hlusta eftir jarðskjálftum og hitamælir sem mun mæla hitastig neðri jarðlaga.

Markmið InSight er að varpa ítarlegra ljósi á þá ferla og aðstæður sem leiddu til myndunar hinna klettóttu pláneta í innra sólkerfinu; Merkúríusar, Venusar, Jarðarinnar, Tunglsins og Mars. Nauðsynlegt er að svara spurningunni um það hvernig Mars myndaðist og því vonast vísindamenn til þess að InSight, með sínum hárnákvæmu mælitækjum, muni geta sýnt fram á samsetningu og virkni kjarna, möttuls og jarðskorpu Mars.

Um leið mun InSight-leiðangurinn skera úr um það hvort jarðskjálftar eigi sér yfir höfuð stað á Mars. Með gögnum frá InSight verður að líkindum hægt að áætla hvort kjarni Mars er fljótandi eða í föstu formi og hversu stór hann er.

„Við höfum rannsakað Mars úr lofti og af yfirborðinu frá árinu 1954 og í leiðinni höfum við öðlast þekkingu á veðurfari plánetunnar, andrúmslofti hennar og ýmsum jarðfræðilegum fyrirbærum á yfirborði hennar,“ segir Lori Glaze, einn af stjórnendum leiðangursins. „Núna munum við loks fá tækifæri til að kynnast því sem gengur á undir yfirborðinu og læra meira um þennan nágranna okkar.“