Alþjóðadagur fatlaðs fólks er haldinn hátíðlegur 3. desember ár hvert. Kastljósinu er þá beint að baráttu fatlaðs fólks og mikilvægu framlagi þess í samfélaginu.

Fjólublár er litur alþjóðlegrar réttindabaráttu fatlaðs fólks og hvatti ÖBÍ opinberar stofnanir og fyrirtæki til þess að lýsa upp byggingar sínar frá því í gær og fram á mánudag. Leggja þannig þessari mikilvægu baráttu lið.

Landsmenn eru sömuleiðis allir hvattir til að klæðast fjólubláu í dag, kveikja á fjólubláum ljósum eða leggja baráttunni lið með öðrum hætti. Markmiðið er upplýst samfélag – ekki aðeins þessa daga heldur alla daga, samfélag þar sem fatlað fólk nýtur verðskuldaðrar virðingar og sjálfsagðra réttinda.

„Þessi dagur, alþjóðadagur fatlaðs fólks, skiptir verulegu máli og það er mikilvægt að gera honum hátt undir höfði. Við höfum hvatt fólk til þess að skarta fjólubláu í dag og lýsa byggingar upp með fjólubláum ljósum. Við viljum beina kastljósinu að réttindabaráttu fatlaðs fólks og mikilvægu framlagi þess í samfélaginu,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.

Í dag verða veitt hvatningarverðlaun ÖBÍ. Það verður gert við hátíðlega athöfn á Grand hótel klukkan 11.30.

Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla og endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks.

Frá árinu 1992 hefur þriðji desember verið alþjóðadagur fatlaðs fólks, markmiðið með deginum er að efla skilning á málefnum fatlaðs fólks og ýta undir stuðning við reisn, réttindi og velferð þess. Jafnframt að auka vitund um þann ávinning sem hlýst af þátttöku fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins – stjórnmála-, félags-, efnahags- og menningarlífs.

„Það er ákaflega gleðilegt og mikið fagnaðarefni hvað það er margt fólk að vinna að jafnfrábærum verkefnum og þessum. Okkur finnst fullt tilefni til þess, á alþjóðadegi fatlaðs fólks að fagna því sem vel er gert og hvetja fólk áfram. Öll verkefnin sem fá tilnefningu í ár eru eftirtektarverð og endurspegla áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks.“

Eliza Reid forsetafrú og Þuríður munu ávarpa hátíðargesti áður en tilnefningar eru kynntar og viðurkenningar veittar.

Haraldur Þorleifsson, sem fékk verðlaunin á síðasta ári, flytur svo ávarp áður en verðlaunin sjálf verða afhent.

Fjólublár er litur alþjóðlegrar baráttu fatlaðs fólks og beinir sambandið því til sveitarfélaga og stofnana þeirra að lýsa upp byggingar sínar frá föstudeginum 2. desember til mánudagsins 5. desember.

Tilnefnd árið 2022 eru í stafrófsröð:

Arna Sigríður Albertsdóttir

– hreyfing og íþróttaiðkun fatlaðs fólks, vitundarvakning

Ferðamálastofa

– verkefnið „Gott aðgengi í ferðaþjónustu“

Harpa Cilia Ingólfsdóttir

– framlag til aðgengismála fatlaðs fólks

Helga Eysteinsdóttir

– náms- og starfsendurhæfing fatlaðs fólks

Ingi Þór Hafsteinsson

– frumkvæði að veiðiferðum fatlaðra barna

Piotr Loj

– þjálfun og upplifun fyrir fatlað fólk í gegnum sýndarveruleika

Rannveig Traustadóttir

– framlag til réttindabaráttu fatlaðs fólks

Sylvía Erla Melsted

– lesblinda, vitundarvakning