Helga Kvam er píanóleikari og aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Eyjafjarðar en hefur jafnan mörg járn í eldinum. Hún og Þórhildur Örvarsdóttir söngkona eru nú að gefa út disk með nýrri tónlist, bæði á Spotify og í föstu formi, sem nefnist Þráðurinn hvíti. Á honum eru eingöngu ný lög. „Við ætluðum ekkert að gefa út núna en öll verkefni sem við vorum búnar að bóka á þessu ári falla niður eða frestast, þannig að við hugsuðum: Hvað getum við nú gert skemmtilegt?“ segir hún létt þegar forvitnast er um útgáfuna.

Í fyrra voru þær stöllur með dagskrá um bókina Svartar fjaðrir Davíðs Stefánssonar, í tilefni 100 ára útgáfuafmælis hennar, að sögn Helgu. „Við sömdum þrjú lög fyrir hana og skutluðum þeim á diskinn. Á síðasta ári fluttum við líka íslensk Maríuvers, verkefnið hét María drottning dýrðar og við æfðum í Listamannaskálanum í Róm sem var besti staður á jarðríki til þeirra hluta. Sigurður Flosason samdi tvö lög fyrir okkur og Jónas Sen eitt. Ætluðum upphaflega að hafa nýjasta verkið Ave Maríu Sigvalda Kaldalóns en hún endaði sem elsta lagið!“

Menningarstofa Fjarðabyggðar bauð listakonunum vinnustofur í júní til að æfa og undirbúa útgáfuna. „Þá var COVID-hlé og við buðum upp á opna æfingu. Venjulega höfum við verið með 50-60 tónleika á ári, nú náðum þessari æfingu og einum tónleikum á Listasumri á Akureyri,“ lýsir Helga.

Þó er ekki allt upptalið. Helga og Þórhildur æfðu dagskrá í tali og tónum í sumar sem hét Álfar og tröll og aldrei var flutt. Nú eru þær að gera fjóra hlaðvarpsþætti úr því efni að sögn Helgu. „Við virðumst hafa litla stjórn á okkar verkefnum. Leggjum upp með ákveðna hluti sem síðan þróast út í eitthvað miklu meira spennandi.“