Landmælingar Íslands og Stofnun Árna Magnússonar standa fyrir átaki um afmörkun og skráningu örnefna um land allt.

Í dag hefst landsátakið Hvar er? á vegum Landmælinga Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar. Um er að ræða átak um afmörkun og skráningu örnefna um landið.

„Við erum að reyna að fá sem flesta sem eru kunnugir staðháttum til að aðstoða okkur við að staðsetja örnefni,“ segir Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri Landmælinga Íslands. „Í dag er um hálf milljón örnefna skráð í svokölluðum örnefnalýsingum sem hafa verið gerðar aðgengilegar á Stofnun Árna Magnússonar.“

Átakið hefst í Borgarbyggð í dag þar sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun skrá örnefni í sinni heimabyggð, Brúarlandi.

„Um 1930 var gert átak í að skrá örnefni á jörðum landsins og sá listi hefur verið gerður stafrænn. Það sem við höfum gert núna er að tengja þetta saman við kortagrunninn okkar,“ útskýrir Eydís. „Það þýðir að ef þú eða afi þinn þekkið eitthvert svæði getið þið staðsett örnefni úr þessu örnefnasafni og sagt okkur hvar það er.“

Eydís Líndal Finnbogadóttir er forstjóri Landmælinga Íslands.

Skírnarfontur þúfnanna

Þannig bar það til að það boð kom, að skrásetja skyldi alla landsbyggðina. En hvar dregur maður mörkin um hvað sé örnefni?

„Við ætlum sko aldeilis að fara niður í minnstu þúfur, en í þessu átaki erum við að einbeita okkur að því að staðsetja þau örnefni sem þegar hafa þegar verið skráð,“ segir Eydís. „Ef fólk hins vegar þekkir fleiri örnefni sem eru ekki á listanum þá má bæta þeim við, og þá skiptir ekki máli hversu stórt kennileitið er. Ef einhver steinn heitir eitthvað, þá heitir hann það.“

Aðspurð segir Eydís að jarðir landsins séu misjafnlega nafnríkar.

„Það er eitthvað af svæðum þar sem ekki er búið að skrá mikið af örnefnum. Það er búið að skrá um tvö þúsund jarðir nú þegar en það eru um fimm þúsund jarðir eftir sem á eftir að staðsetja örnefni á,“ segir hún. „Við vitum líka að hálendið er ekki jafn nafnríkt og mörg láglendissvæði þar sem fólk hefur búið lengi.“

Athöfnin í Borgarbyggð hefst klukkan 17.30 í dag í félagsheimilinu Lyngbrekku. Allir sem hafa góða staðbundna þekkingu á örnefnum eru velkomnir í hóp skráningaraðila og skiptir þá engu hversu tölvufær viðkomandi er.