Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur hefur ritstýrt tímaritinu Húsfreyjunni í sextán ár. Þar með hefur hún slegið metið, því engin hefur verið lengur í því embætti, þó Húsfreyjan sé 70 ára.

„Þegar ég byrjaði var ég kúabóndi í Miðhvammi í Aðaldal í Þingeyjarsýslu og dagurinn snérist um kýr, kálfa, aðra nautgripi og dráttarvélar. Svo venti ég mínu kvæði í kross, lauk sálfræðinámi og er nú með eigin sálfræðistofu, í Reykjavík, Huglind ehf. í Kringlunni. Ég vinn bæði með einstaklingum að því að bæta líðan þeirra og heilsu og er með námskeið og fyrirlestra bæði hér á landi og fyrir Íslendinga á Spáni. En allan tímann hefur Húsfreyjan fylgt mér sem segir sína sögu um hve skemmtileg hún er. Hún er vandað, prentað tímarit sem kemur út fjórum sinnum á ári.“

Kristín Linda er uppalin í Hjarðarholti í Fnjóskadal þar sem foreldrar hennar búa enn og hún ólst upp við Húsfreyjuna á heimilinu. En hvað heillaði hana við ritstjórastarfið?

„Í fyrsta lagi finnst mér gaman að geta lagt mitt af mörkum til þess að þetta tímarit íslenskra kvenna blómstri og haldi velli. Það er dálítið einstakt að það hefur verið gefið út af sama eigenda, Kvenfélagasambandi Íslands, í 70 ár. Það varðveitir hluta af sögu og menningu íslenskra kvenna og ég vil gjarnan leggja því lið. Svo er gaman að geta beint kastljósinu að því sem vel er gert og til fyrirmyndar og vera með viðtöl við áhugaverðar konur og umfjöllunarefni sem mér finnst jákvæð og hvetjandi fyrir okkur hinar.“

Kristín Linda segir Húsfreyjuna alltaf vera í þróun, í takt við tímann, en ákveðin gildi hafi haldið sér alla tíð, eins og að vera með ýmiss konar fróðleik sem snúi að daglega lífinu, heimilinu og líðan og lífsgæðum fólks. Undanfarin ár hafi til dæmis verið fræðsla um matarsóun og fatasóun í Húsfreyjunni en á 6. áratugnum hafi meira verið skrifað um hreinlæti á heimilum, ræktun grænmetis og heimasaum á fötum.

„Svo er þetta blað Kvenfélagasambandsins og fréttir af kvenfélögunum eru fastur liður. Á Íslandi eru nú 154 kvenfélög, mörg í miklum blóma og tvö eru nýstofnuð. Ég var í öflugu kvenfélagi Aðaldæla þegar ég bjó þar og nú er ég í kvenfélagi Grindavíkur, þar eru yfir hundrað konur og mikið líf og fjör,“ tekur hún fram

Kristín Linda skrifar mest í blaðið, enda er hún ritstjórinn og blaðamaðurinn en kveðst líka vera með þáttastjórnendur sem sjái til dæmis um handavinnu og matarumfjöllum – hvort tveggja vinsælt efni. „Í blaðinu sem kemur út í dag er forsíðuviðtal við Elizu Reid forsetafrú, uppskrift að verðlaunasjali og spennandi uppskriftir að sykurlitlum jólakökum, svona til dæmis.“

Hún segir þær sem verða með erindi á málþinginu hafa setið löngum stundum uppi á Þjóðarbókhlöðu að fara í gegnum alla þessa 70 árganga tímaritsins. „Þá sér maður hvernig blaðið hefur fjallað um málefni kvenna og birt tískuna og tíðarandann hverju sinni. Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur gerir úttekt á því hvaða konur völdust sem viðmælendur. Jóhanna Erla Pálmadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands, fer yfir hvernig Húsfreyjan hefur varðveitt hannyrðasögu þjóðarinnar. Guðrún Hallgrímsdóttir fjallar um fæðuval og matarmenningu í Húsfreyjunni og hver þróunin hefur verið. Einu sinni voru uppskriftir til dæmis með litlum sykri vegna sykurskorts og nú erum við aftur að leita að slíkum uppskriftum vegna hollustuhátta. Svo fjallar Rakel Sigurðardóttir, sunnlensk kvenfélagskona, um Húsfreyjuna og horfir til framtíðar, úrslit verða birt í ljóðakeppni blaðsins og Þuríður Sigurðardóttir syngur fyrir gesti.“