Dagskrá um Drífu Viðar verður haldin í Neskirkju á morgun, laugardaginn 7. mars, klukkan 14.00, í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli hennar. Drífa kom víða við í íslensku menningarlífi áður en hún lést langt fyrir aldur fram. Á viðburðinum í Neskirkju verður í stuttum erindum sagt frá málaralist hennar, ritverkum, bókmennta- og listagagnrýni, revíusöng og samstarfi hennar við Jórunni Viðar systur sína, kvennabaráttu og stjórnmálastarfi.

„Það er ákveðin forsaga að þessu,“ segir Jón Thoroddsen, sonur Drífu. „Fyrir um tveimur árum kom Katrín Fjeldsted að máli við mig og bað mig að fara yfir óperutexta sem móðir mín samdi og Jórunn Viðar, systir mömmu og móðir Katrínar, hafði samið tónlist við. Nú er Þórður Magnússon að samhæfa texta og tónlist. Þetta er líklega fyrsta íslenska óperan. Svo var ákveðið að fylgja þessu eftir og rifja upp hlut mömmu í íslensku menningarlífi með dagskrá um hana í tilefni af 100 ára afmæli hennar. Það verður bæði akademísk umfjöllun og skemmtidagskrá.“

Drífa Viðar var afar hæfileikarík á listasviðinu og gegnhlý manneskja.

Ótrúlega fjölhæf

Drífa Viðar var ótrúleg fjölhæf. Jón, sem var fjórtán ára þegar móðir hans dó, er spurður hvort hann hafi í æsku orðið var við þessa fjölhæfni. „Ég var ekki kominn með alveg nægilegt vit til að skynja hversu hæfileikarík hún var. Hún málaði niðri í kjallara og var einnig stöðugt skrifandi. Þær Jórunn unnu saman að barnatímanum í útvarpi og mamma skrifaði leikrit fyrir börn. Hún var söngkona og leikkona. Einnig myndlistar- og bókmenntagagnrýni og gagnrýni hennar sýndi töluverða stílgáfu. Svo var hún mikil baráttukona í pólitík, virk í Samtökum herstöðvaandstæðinga og Menningar- og friðarsamtökum kvenna. Það var því kannski nokkuð erfitt fyrir hana að beina öllum þessum hæfileikum í einn farveg.

Hún var sífellt að. Ég man eftir henni uppi í rúmi að skrifa. Þegar hún var að mála málaði hún mjög hratt. Einu sinni sagði ég um mynd sem hún var að mála: „Þarna sé ég fígúru.“ Þá flýtti hún sér að taka fígúruna burt svo hún truflaði ekki myndbygginguna.“

Gegnhlýr fjörkálfur

Spurð hvernig karakter móðir hans hafi verið segir Jón: „Það var mikill leikur í henni. Hún var mjög glaðlynd að eðlisfari. Þuríður Pálsdóttir söngkona sagði eitt sinn við mig að miðað við ömmu mína Katrínu sem var nokkuð fjarlæg, eins og Jórunn, þá væri mamma gegnhlý. Hún var alls staðar hrókur alls fagnaðar og óskaplega lifandi manneskja, nánast fjörkálfur.“