Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek að mér nýtt íslenskt verk og veit ekki hver höfundurinn er,“ segir leikstjórinn Árni Kristjánsson um verkið Fáir, fátækir, smáir sem leiklesið verður í Hannesarholti í dag klukkan 20.00.

Það er Vonarstrætisleikhúsið sem hefur veg og vanda af uppsetningu verksins. Í fréttatilkynningu frá leikhúsinu segir að forsprökkum Vonarstrætisleikhússins, þeim Sveini Einarssyni og frú Vigdísi Finnbogadóttur, hafi borist verkið í sumar og höfundur þess óskað eftir nafnleynd. Það fór svo að Árni tók að sér leikstjórn verksins. Fáheyrt er að höfundar óski þess að nafn þeirra verði ekki gert opinbert og enn sjaldgæfara er að sjálfur leikstjórinn viti ekki hver höfundurinn er.

„Það fær mann til að spá allt öðruvísi í verkið. En ég skil að vissu leyti hvað fær höfundinn til að biðja um nafnleynd. Það er flott hjá Sveini og Vigdísi að koma þeirri áríðandi hugsun áleiðis sem kemur fram í verkinu,“ segir Árni.

Hulduhöfundur Fáir, fátækir, smáir varpar upp nöturlegri sviðsmynd þar sem Íslendingar horfa upp á sjálfsmynd sína molna niður. Verkið fjallar um uppþot í íslensku samfélagi. Ráðherra hverfur sporlaust, erlend þjóð vill kaupa stóran hluta af landinu og stjórn, skipulag, tungumál og þjóðarímynd Íslensku þjóðarinnar lítur fyrir að ætla að fara á hliðina,

Eins og áður segir mun Árni Kristjánsson leikstýra verkinu en með helstu hlutverk fara Þór Tulinius, Brynhildur Guðjónsdóttir, Salóme Gunnarsdóttir, Jakob Þór Einarsson, Alexander Danter Erlendsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Benedikt Karl Gröndal, Orri Huginn Ágústsson og Þórunn Magnea Magnúsdóttir. Tónlist semur Guðni Franzson.