Fólk eins og ég sem hefur áhuga og ástríðu fyrir leikhúsi á erfitt með að losna við þá bakteríu,“ segir Örn Alexandersson, höfundur og leikstjóri nýs leikverks sem Leikfélag Kópavogs frumsýnir á laugardaginn. Leikritið heitir Fjallið. „Hugmyndin blasti við mér fyrir mörgum árum, í kjölfar hrunsins, og hefur verið töluvert lengi í vinnslu,“ segir Örn. Átta leikarar eru í hlutverkum á sviðinu en um 20 manns koma að sýningunni með einum eða öðrum hætti, að hans sögn.

En er Fjallið gamanleikrit, harmleikur eða einhvers staðar þar á milli? „Fjallið er gamanleikrit með dass af farsa og er fyrir alla aldurshópa, þó frekar fyrir fullorðna,“ upplýsir höfundurinn.

Höfundurinn og leikstjórinn Örn er öllum hnútum kunnugur í Leikfélagi Kópavogs.

Fjallið er eitt af mörgum leikverkum sem Örn hefur samið. Snertu mig – ekki var sett upp af Leikfélagi Kópavogs fyrir nokkrum árum. Framhald af því fékk nafnið Snertu mig ekki – snertu mig! Einnig kveðst hann hafa skrifað þó nokkuð af styttri leikverkum, meðal annars eitt sem nú er í sýningum hjá Halaleikhópnum í Reykjavík. „Halaleikhópurinn er með dagskrá sem heitir Nú er hann sjöfaldur, sem samanstendur af sjö stuttverkum,“ útskýrir hann. „Þá hafa áhugaleikfélög víðs vegar um landið sett upp verk eftir mig, bæði barnaleikrit og leikþætti fyrir fullorðna.“

Örn kveðst hafa starfað með Leikfélagi Kópavogs frá unglingsárum og gert þar allt sem hægt sé að gera. En að atvinnu sé hann „kerfiskarl“ eins og hann orðar það. „Ég vinn hjá BSI á Íslandi ehf. og hef að aðalatvinnu að taka út stjórnunarkerfi fyrirtækja sem eru með alþjóðlega vottun.“

Fjallið er sýnt í húsakynnum Leikfélags Kópavogs að Funalind 22 og þess má geta að uppselt er á frumsýninguna á laugardaginn.