Hrútadagurinn á Raufarhöfn fer fram í dag, en hann er haldinn fyrsta laugardag í október ár hvert. Þar er lagt upp með að safna saman söluhæfum hrútum af svæðinu á einn stað, þar sem þeir eru svo bornir saman, keyptir og seldir auk þess sem boðið er upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

„Við erum á svokölluðu hreinu svæði, svo að ef þú ert með tilskilin leyfi þá geturðu keypt hrút og tekið hann með hvert á land sem er,“ segir Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir, einn af skipuleggjendum Hrútadagsins. „Hátíðin er hress og skemmtileg og hefur verið mjög vel sótt í gegnum árin. Fólk er að koma alls staðar að af landinu.“

Meðal dagskrárliða í ár verður boðið upp á fegurðarsamkeppni gimbra og kosningu um flottasta parið, stígvélakast, hrútauppboð og harmonikkuspil. Einnig verða sölubásar á staðnum með fjölbreyttar vörur úr nágrenninu. Um kvöldið fara svo fram tónleikar til heiðurs Jónasi Friðriki Gunnarssyni, skálds á Raufarhöfn, sem gerði garðinn frægan með Ríó Tríóinu.

Þá mun Félag eldri borgara á Raufarhöfn afhenda Norðurþingi útilistaverkið Drekann eftir Helga Ólafsson. Verkið var fyrst sett upp árið 2015 en hefur nú verið endurbætt og er komið upp á stóran stall við Óskarsstöðina á Raufarhöfn.

Dagskrána í heild má finna á Face­book-síðu Hrútadagsins.

Helgi Ólafsson og Drekinn.