Um þessari mundir eru 20 ár liðin frá stofnun skákfélagsins Hróksins. Á þessum árum hafa Hróksliðar að mestu einbeitt sér að útbreiðslu skáklistarinnar á Íslandi og Grænlandi, þar sem skáklandnám Hróksins hófst árið 2003.

Keppnisskapið var sannarlega mikið hjá Hróksliðum í upphafi. Yfirlýst markmið félagsins við stofnun var að senda lið til keppni í 4. deild Íslandsmóts skákfélaga og vinna sig rakleitt á toppinn á minnsta mögulega tíma. Það hafðist og varð Hrókurinn Íslandsmeistari skákfélaga árin 2002, 2003 og 2004.

Á undanförnum árum hefur Hrókurinn farið í þúsundir heimsókna í skóla um allt land þar sem skákbókinni Skák og mát hefur verið dreift til fimm árganga þriðjubekkinga. Alls eru þetta 25 þúsund eintök.

„Í gegnum 20 ára sögu hefur Hrókurinn heimsótt öll sveitarfélög á Íslandi og staðið fyrir ótal viðburðum, jafnt í skólum, athvörfum, fangelsum, sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og víðar, undir kjörorðum félagsins: Við erum ein fjölskylda,“ segir í fréttatilkynningu frá Hróknum í tilefni 20 ára afmælisins.

Tuttugu ára afmæli Hróksins verður fagnað með margvíslegum hætti. Á miðvikudaginn hefst hátíð í Kullorsuq, sem er 450 manna bær á norðvesturströnd Grænlands. Með í för verða sirkuslistamenn og skákkennari.

Dagana 14. og 15. september verður afmælishátíð Hróksins haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur. Heiðursgestur mótsins er stórmeistarinn Regina Pokorna, sem tefldi með sigursælum sveitum Hróksins á sínum tíma.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, flytur setningarávarp mótsins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leikur fyrsta leikinn.