Robina Courtin er athyglisverður farandkennari í búddafræðum sem hefur miklu að miðla og hreyfir við hlustendum. Ég tala af reynslu,“ segir Þórhalla Björnsdóttir sem bauð Courtin að verða með námskeið hér í borginni nú um helgina, 15. og 16. febrúar.

Þórhalla kveðst hafa verið nemandi í búddískum fræðum síðan árið 1975, er hún var í Nepal á námskeiði sem átti að vara í mánuð en teygðist upp í þrjá, fyrir þrábeiðni þátttakenda. „Við vorum yfir 200 manns þarna og bjuggum við mjög frumstæðar aðstæður, lítil sem engin þægindi og vorum oft veik. Þrátt fyrir það virtust flestir svipað þenkjandi og vildu halda áfram til að auka við skilninginn og það var látið eftir okkur. Til gamans má nefna að ég fór í fimm vikna hlédrag í Frakklandi í maí síðastliðnum og þar hitti ég aftur marga af þeim sem voru á þessu sama þriggja mánaða námskeiði fyrir 44 árum. Þarna var Robina Courtin sem er í dag mikils metinn kennari og fer víða. Ég spurði hana hvort hún væri ekki til í að koma við á Íslandi einn daginn og nú er hún á leiðinni.“

Robina Cortin hefur miklu að miðla.

Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem Þórhalla hefur forgöngu um að fá hingað fólk til að miðla búddafræðum. Hún hefur áður staðið fyrir komu kennara og stórra meistara, meira að segja Dalai Lama. „Robina ætlaði bara að koma til mín í vinkonuheimsókn núna en er líka til í að halda námskeið sem hún nefnir Hugrakkt hjarta, vitur hugur. Þar útskýrir hún hvernig við getum unnið með okkar eigin huga á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, bæði gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Það leiðir til aukinnar visku og getu til að láta gott af okkur leiða.“

Þórhalla segir Robinu Courtin hafa unga orðið andlega sinnaða og mikla baráttukonu gegn ríkjandi óréttlæti sem svart fólk, konur og fátækir urðu fyrir. „Hún er fædd í Ástralíu, er önnur í sjö barna fjölskyldu. Fór ung að vinna í prentsmiðju sem fjölskyldan rak og það varð fyrsti vísirinn að starfi hennar síðar við útgáfu rita, meðal annars eigin skrifum. Hún starfaði sem ritstjóri hjá Wisdom Publication frá 1978 til 1987 og frá 1994 til 2000 ritstýrði hún Mandala Magazine,“ lýsir hún og tekur fram að námskeiðið um helgina verði í húsakynnum Hugleiðslu-og friðarmiðstöðvarinnar á Grensásvegi 8 frá klukkan 10-16 og sé öllum opið svo lengi sem húsrúm leyfir. Framlög eru frjáls.