Þann 18. janúar 1930 bauð Jóhannes Jósefsson, glímukappi og hóteleigandi, nokkrum bæjarbúum inn í veitingasali Hótel Borgar. Hótelið hafði lengi verið í smíðum, teiknað árið 1917 af Guðjóni Samúelssyni, fyrrverandi húsameistara ríkisins.

Gestir höfðu orð á því hve stórmyndarleg húsakynni væru – svo gersamlega ólík þeim sem áður höfðu þekkst á landinu að þeim fannst eins og þeir væru komnir í annað land.

Knútur Zimsen, þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur, hélt stutta tölu fyrir gesti þar sem hann þakkaði Jóhannesi fyrir þann skörungsskap sem hann og kona hans Karólína Amalía Guðlaugsdóttir höfðu sýnt með því að koma þessu reisulega húsi upp.

Um kvöldið var þar dansleikur og borðhald, en veitingasalirnir voru opnaðir fyrir almenningi degi síðar, þann 19. janúar. Hótelið, sem var lengi eina löglega vínveitingahús landsins, var síðar hertekið af Bretum í seinni heimsstyrjöld. Í dag eru á hótelinu 99 herbergi, þar af 6 svítur og ein turnsvíta.