Veitingastaðurinn Hornið á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis fagnar 40 ára afmæli í dag og er því með elstu veitingastöðum landsins.

Bjart yfirbragð með ítölskum blæ

Veitingamaðurinn Jakob H. Magnússon, sem á Hornið ásamt fjölskyldu sinni, segir að staðurinn hafi verið frumkvöðull í að bjóða ítalskan mat.

Staðurinn var opnaður 23. júlí 1979. Jakob og eiginkona hans, Valgerður Jóhannsdóttir, fluttu þá um vorið heim frá Danmörku. Jakob hafði kynnst þessari matargerð þegar hann vann á ítölskum veitingastað í Kaupmannahöfn.

„Hugmyndin var að opna stað sem hefði létt og bjart yfirbragð en með ítölskum blæ,“ segir Jakob. „Hálfu ári eftir að Hornið fór af stað opnuðum við gallerí í kjallaranum. Við erum með tvo sali, Galleríið og Djúpið, en í Djúpinu er boðið upp á pitsu- og pastahlaðborð og fleira fyrir hópa.“

Staðurinn var opnaður í samstarfi við Guðna Erlendsson, frænda Jakobs. „Guðni flutti út til Danmerkur nokkrum árum síðar en við hjónin héldum rekstrinum áfram og stöndum enn vaktina.“

Sömu eigendur hafa átt Hornið allt frá upphafi. „Við höfum verið á sama nafnnúmeri og kennitölu allt frá upphafi,“ segir Jakob. „Í því starfsumhverfi veitingastaða sem nú er ætti það að þykja merkilegt. Ég er stoltur af þessu.“

Ítölsk matargerð var lítt þekkt

„Hornið var fyrsti veitingastaðurinn sem bakaði pitsu fyrir framan gesti í sal. Lasagne var til að mynda meira og minna óþekkt. Ítölsk matargerð var lítið þekkt á Íslandi. Það tíðkaðist í raun allt önnur matargerð,“ segir hann.

Jakob segir að sérhæfingu í pitsum og pasta, með úrvals hráefni og góðum mat, hafi verið vel tekið allt frá upphafi. Hornið var bjartur og opinn veitingastaður ólíkt því sem þá tíðkaðist. Þá voru veitingastaðir gjarnan með bása og þykkar gardínur.

„Veitingahúsaflóran var fremur fátækleg. Hér hefur orðið bylting í fjölbreytni með veitingastöðum í hverju rými í miðbænum,“ segir Jakob.

Hornið er fjölskyldufyrirtæki. Hlynur, eldri sonurinn, er með föður sínum í rekstrinum og í eldhúsinu. Sá yngri, Jakob Reynir, starfar sem þjónn. Dóttirin Ólöf er matreiðslumeistari eins og Jakob. Á Horninu vinna 16 starfsmenn.

Opið hús í dag og tónleikar í Djúpinu

„Við erum með opið hús í dag frá klukkan fjögur fram eftir kvöldi. Ætlum að bjóða upp á pitsur og annað góðmeti fyrir gesti og gangandi. Það eru allir velkomnir. Síðan eru tónleikar í kjallaranum í Djúpinu fram á nótt,“ segir Jakob.