Í gær voru liðin tíu ár síðan að sprenging varð í íbúð við Ofanleiti 17. Maðurinn sem bjó í íbúðinni slasaðist alvarlega og lést úr sárum sínum á gjörgæsludeild Landspítalans degi síðar. Skemmdir í húsinu voru mismiklar en sprengingin var rakin til gaskúts sem lekið hafði úr um nokkurn tíma áður en slysið átti sér stað.

Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur var búsett í Ofanleiti 17 ásamt fjölskyldu sinni þegar sprengingin átti sér stað. Hún var við störf við barnabókahátíðina Mýrina í Norræna húsinu þegar hún frétti af slysinu.

„Ég var stödd þar á upplestri þegar síminn hringir og ég sé að það er maðurinn minn. Þegar ég svara þá er hann pollrólegur og segir mér að það hafi orðið sprenging,“ lýsir Arndís, sem taldi eiginmann sinn fyrst um sinn vera að færa í stílinn. „Hann var það rólegur að ég hélt að hann hefði misst sultukrukku sem hefði sprungið út um allt gólf eða eitthvað þvíumlíkt.“

Rof á tilverunni

Maður Arndísar var staddur einn heima með sjö mánaða gamlan son þeirra þegar sprengingin varð.

„Hann greip barnið úr vöggunni, sem var sjö mánaða kríli á samfellunni, og hljóp sjálfur berfættur í baðslopp út úr húsinu þar sem logarnir teygðu sig upp eftir veggjunum,“ segir hún. „Þeir fóru yfir götuna í nálæga blokk þar sem amma hans átti heima. Þá var enn mjög óljóst hvað hafði gerst.“

Á leiðinni heim lýsir Arndís því hvernig hún sá reykinn sem steig upp frá heimili þeirra þegar hún keyrði upp Öskjuhlíðina. Þótt atvikið hafi óneitanlega haft áhrif þá segir hún fjölskylduna hafa að vissu leyti sloppið með skrekkinn.

„Þá fannst manni að einhverju leiti eins og ekkert hefði komið fyrir. Nágranni okkar dó og sú íbúð var gjörónýt,“ segir hún. „Maður varð mjög meðvitaður um hvað þetta var í rauninni stórkostlegt lán að feðgarnir hefðu báðir sloppið. En auðvitað situr þetta í manni. Þetta var svo mikið rof á sáttmálanum sem maður býr við um hvernig hlutirnir eiga að vera. Það á ekki að verða sprenging í íbúðarhúsnæðinu þínu.“

Óörygginu mætt

Á tímanum þegar sprengingin átti sér stað var Arndís að vinna að uppkasti að nýrri bók sem átti eftir að verða önnur skáldsaga hennar.

„Ég var komin á fyrsta uppkast þegar þetta átti sér stað. Ég hélt áfram að vinna hana en auðvitað leitaði þetta á mann – þessi óöryggistilfinning sem leggst í mann þegar fótunum er kippt undan manni,“ segir hún. „Þetta fór að blandast inn í þessa sögu – ákveðin vangavelta um það hvernig lífið getur spilast hjá fólki.“

Síðan þá gerði Arndís ótal áhlaup á handritið áður en hún varð ánægð með niðurstöðuna. Nú er bókin, sem ber titilinn Kollhnís, væntanleg í október.

„Þetta er saga um stálpaðan strák sem æfir fimleika og býr í Kópavoginum. Hann er að fullorðnast og átta sig á því hvað það er flókið að vera manneskja,“ útskýrir Arndís. „Hann áttar sig á því hvað er flókið í samskiptum við annað fólk og í fjölskyldumálum og honum finnst það ansi erfitt.“

Reynslan af sprengingunni og eftirköst hennar ummyndast í eldsvoða í sögunni. Arndís segir mikinn létti að hafa komið bókinni frá sér.

„Sérstaklega eftir að hafa glímt við þessa sögu svona lengi. Það eru upplifanir og tilfinningar sem komu upp eftir sprenginguna sem ég hef reynt að færa í texta í allan þennan tíma,“ segir hún. „Ég hef oft reynt að horfast í augu við að mér myndi ekki takast þetta sem var mjög ófullnægjandi tilfinning svo það er mikill léttir að hafa gert þetta upp og klárað það, vonandi.“