Fyrir áratug birtist á forsíðu Fréttablaðsins mynd af Karli Ágústi Arnarssyni hoppa ofan í Hafnarfjarðarhöfn. Þá var hann þrettán ára og smellti sjálfur Gunnar V. Andrésson af. Karl notaði myndina sem fermingarkort og heldur enn mikið upp á myndina.

„Ég man vel eftir þessu,“ segir Karl Ágúst Arnarsson, sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins fyrir áratug, að hoppa sex metra niður í Hafnarfjarðarhöfn.

Ljósmyndarinn Gunnar V. Andrésson smellti af, en hann var einn reyndasti blaðaljósmyndari landsins og starfaði við fagið í áratugi.

Í myndatexta við myndina stóð að Karl léti norðanáttina ekki aftra sér frá því að stökkva léttklæddur í Hafnarfjarðarhöfn.

„Það var skítakuldi þennan dag. Það er kannski ekki að sjá á myndinni en ég man að það var verulega kalt. Við löbbuðum svo heim eftir þetta nánast með grýlukerti á andlitinu,“ segir hann og hlær.

Gunnar þurfti nokkrar tökur til að ná þessari eftirminnilegu mynd sem Karl Ágúst hefur notað, meðal annars í fermingarkortið sitt forðum daga.

„Það var svo kalt þennan dag að það var ekkert hægt að synda í sjónum þannig að við vorum bara að hoppa. Við vorum þrír vinirnir sem vorum að leika okkur að þessu þennan dag og ég man eftir því að ljósmyndarinn var orðinn smeykur um heilsu okkar – því það var svo kalt.

En okkur fannst svo gaman að við hoppuðum oft ofan í ískaldan sjóinn. Svo hættu vinir mínir að hoppa því þeim var svo kalt en ég tók nokkrar aukaferðir til að ná góðri mynd. Ætli ég hafi ekki farið tíu aukaferðir,“ segir Karl Ágúst, sem eðlilega heldur mikið upp á myndina.

Gunnar V. Andrésson eða GVA var einn fremsti fréttaljósmyndari landsins og margar eftirminnilegar myndir eru til eftir hann þar sem hann hefur skjalfest söguna. Enda var Karl Ágúst uppnuminn yfir að sjálfur GVA hefði smellt af. „Já. Sæll. Það er alvöru. Ég man líka að hann var algjör meistari,“ segir Karl Ágúst sem nú, tíu árum síðar, er enn aðeins að kæla líkamann. „Ég byrjaði að stunda klakabað fyrir skömmu. Finnst það voðalega gaman og gott. Svo vinn ég mikið með heitt og kalt eftir ræktina. Kuldinn róar mann mikið niður.“