„Við lögðum af stað frá Reykjavík á sunnudaginn 13. júní og fengum velting yfir flóann, biðum á Akranesi yfir nóttina, norðanáttin var svo stíf við Snæfellsnes. Sigldum svo,“ segir Helena W. Óladóttir, umhverfisfræðingur og leiðangursstjóri Seiglanna, 35 kvenna sem munu ferðast á skútunni Esju kringum landið. Hún er stödd í höfninni á Ísafirði þegar ég heyri í henni.

Spurð hvort veltingur hafi verið fyrir Látrabjargið svarar hún: „Já, þar er röst en það var svakalega fallegt að sigla á miðnætti fram hjá bjarginu. Svo komum við til Ísafjarðar á þriðjudag í blíðu, Skutulsfjörðurinn sléttur og fallegur. Vorum með málþing hér um umhverfismál og sjávarútveg sem var ágætlega sótt. Fylgjumst vel með veðurspám og eigum von á góðu veðri næstu daga, siglum héðan á þjóðhátíðardag yfir í Jökulfirði, svo fyrir Horn og komumst örugglega til Akureyrar 21. júní. Það er planið.“

Helena segir leiðangurinn hafa verið í undirbúningi í hálft ár. Markmiðið sé tvíþætt, annars vegar að efna til funda um umhverfismál hafsins og hins vegar að efla áhuga og kunnáttu kvenna á siglingum.

„Við erum sex konur sem siglum allan hringinn en úr einni höfn í aðra eru alltaf fjórar nýjar með okkur. Þannig að hér á Ísafirði stigu fjórar frá borði og fjórar nýjar koma um borð.“

Hún bendir á að sjávarútvegur og siglingar séu að mestu í höndum karla.

„Þar hallar á kynin og ég held að með þátttöku kvenna í sjávartengdum störfum fjölgum við konum í umræðunni. Annars eru bara 50% þjóðarinnar að taka þátt í því samtali. Við viljum fá fleiri konur til að sigla, hvort sem það er í leik eða starfi.“

Hluti áhafnar fyrsta legginn: Þrúður Óskarsdóttir, Guðrún Lára Pálmadóttir, Inga Rut Hjaltadóttir, Helena W. Óladóttir, Sigríður Ólafsdóttir og Anna Karen Jörgensdóttir.

Vanar og óvanar á vakt

Þótt Helena sé leiðangursstjóri hópsins kveðst hún ekki vera allra kvenna vönust siglingum.

„Ég er umhverfisfræðingur og tiltölulega nýbyrjuð að sigla,“ lýsir hún.

Segir verndun umhverfisins sér hjartans mál sem hún hafi látið sig varða í 20 ár á ýmsum sviðum.

„Mig langar að fá fólk til að taka þátt í umhverfismálum þannig að þau þokist áfram. Það er margt að gerast í rannsóknum og nýsköpun og þeirri þekkingu þarf að skila til almennings þannig að hún verði hagnýt. Ég held í einlægni að allir vilji gera betur.“

Á Akureyri segir Helena ætlunina að hitta siglingaklúbbinn Nökkva.

„Þangað koma tvær konur að ræða við okkur, annars vegar Ásta Ásmundardóttir sem hefur verið að rannsaka örplast í íslensku umhverfi, í drykkjarvatni, jökulís og víðar og Unnur Jökulsdóttir sem segir okkur frá sínum siglingum. Svona höldum við áfram kringum landið.“

Helena kveðst sjóhraust þó að hún hafi ekki margra ára reynslu í siglingum.

„Í þessum sex kvenna hópi sem siglir allan hringinn eru hins vegar mjög reyndar siglingakonur. Ég get nefnt Töru Ósk Markúsdóttur sem er yngst, rétt að verða átján ára, hún er nemi í vélstjórn og búin að sigla um öll heimsins höf. Annars erum við ósköp venjulegar konur, vel sjófærar allar, sumar ungar og aðrar á miðjum aldri. Það er mikilvægt fyrir stúlkur að hafa fyrirmyndir og hollt að eiga við landfestar og draga upp segl.“

Hún segir konurnar skipta sér á fjögurra tíma vaktir allan sólarhringinn þegar þær eru á siglingu.

„Þá eru alltaf tvær vanar á vakt og ein til tvær óvanar sem eru gestahásetar. Við vinnum saman og ef þarf að minnka seglin eða venda þá æfast allar í að fást við reipin, vindurnar, siglingatækin og stýrið og læra nöfnin á öllum hlutum.“

Hér stendur Tara Ósk Markúsdóttir í stafni þegar stímt er fram hjá Snæfellsjökli. Hún er yngst í áhöfn en afar reynd í siglingum. Myndir/Halla Ólafsdóttir

Allt handunnið um borð

Skútan Esja er engin lúxusskúta, að sögn Helenu.

„Esja er frekar einföld skúta og það er ekkert rafdrifið í henni. Við þurfum að nota líkamann til að vinna við seglin en ekki bara að ýta á takka eins og tíðkast á skútum með vökvadrifin segl. Hjá okkur er allt handunnið. Við erum með reipi og vindur sem við setjum sveifar í, þannig að við fáum tilfinningu fyrir því sem við erum að gera og þeim átökum sem það kostar,“ lýsir Helena.

Hún segir Sigríði Ólafsdóttur skipstjóra hafa fengið það verkefni að velja skútu.

„Það er engin kona á landinu með meiri réttindi en Sigríður, hún er kennari í Skipstjórnarskólanum og mjög fær skipstjóri,“ tekur hún fram. „Við vildum gott ferðaskip sem færi þokkalega vel með okkur. Esja hefur verið leigð í ferðaþjónustu og við tókum hana á leigu í þetta verkefni.“

Konurnar um borð nota allar sumarfríin sín í ferðina sem farin er í vitundarvakningarskyni, að sögn Helenu.

„Við erum styrktar af þremur stórum fyrirtækjum í grunninn, Faxaflóahöfnum, Tækniskólanum og Brimi og smærri fyrirtæki hafa lagt okkur lið með einum eða öðrum hætti. Fengum líka svolitla styrki frá þremur ráðuneytum, forsætis-, samgöngu- og umhverfisráðuneytum,“ segir Helena og bendir á að hægvarp sé frá skútunni á fésbókarsíðu hópsins: kvennasigling.

„Fólk getur hætt að horfa á gosið!“