Stúlkan sem ég er að minnast í þessu nýútkomna lagi mínu hét Anna Benný. Hún kom valhoppandi og veifandi höndum á móti mér þegar ég hóf störf á geðdeild Landspítalans 6. september 1981 og spurði hvort ég væri engillinn sinn. Þessi dagur er versti dagur lífs míns því Rósa, þáverandi konan mín, hafði lent í alvarlegu slysi og lést þremur dögum síðar.“ Þannig byrjar Magnús Þór Sigmundsson tónlistarmaður að lýsa sögunni á bak við lagið Höfrungastúlkan sem er nýkomið á veiturnar Spotify og YouTube og hann er höfundur að. Heldur svo áfram frásögninni.

„Anna Benný var sjúklingur, ung og falleg stúlka, og við fundum strax sterka tengingu. Ég var síðar settur sem aðgæslumaður hennar á deildinni. Hún varð mikil vinkona mín, við pössuðum svolítið hvort upp á annað. Ég fann til með henni því henni leið oft illa – þá sagðist hún vera höfrungur sem synti um.

Höfrungastúlkan

Mörgum árum seinna hringdi hún í mig, mjög yfirveguð og þakkaði mér þá vináttu sem ég hefði sýnt henni þegar hún var á deildinni. Tók fram að hún liti öðruvísi út núna, hún væri orðin feit af lyfjum. Ég fattaði ekkert að hún væri að kveðja fyrir fullt og allt en síðar frétti ég að þann dag hefði hún gengið í sjóinn. Höfrungurinn leitar heim.

Magnús kveðst hafa samið bæði lag og texta sem hann tileinkaði þessari stúlku árið 2017. Hann hafi leyft vini sínum Ragnari Ólafssyni tónlistarmanni að heyra það fyrir tveimur árum, það hafi setið í honum og nú í sumar hafi Ragnar vakið máls á því að vinna þetta efni og gefa það út. „Já, alveg endilega, svaraði ég, og við gerðum nokkrar upptökur en það var ekki fyrr en Einar Scheving trommuleikari slóst í hópinn sem lagið lagðist rétt. Hann er snillingur,“ lýsir Magnús. „Svo fékk ég fleiri hljóðfæraleikara, Matthías H. Mogensen bassaleikara, Ara Braga á Flugel-horn og minn góða vin Jóhann Helgason og dóttur mína Þórunni Antoníu í bakraddir.“

Allt er að mestu búið til og hljóðritað heima hjá Magnúsi og Jennýju, konu hans, í Hveragerði, að hans sögn. „Ég hef verið að fjárfesta í upptökutækjum og er sjálfbjarga hvað það varðar, svo framarlega sem ég finn tæknimann,“ segir Magnús. „...og nú syndir Höfrungastúlkan um frjáls á Spotify.“