Tímamót

Hljóðver bókasafnsins opnað fyrir almenning

Í Borgarbókasafninu Grófinni leynist lítið hljóðver þar sem safnið hefur verið að framleiða hlaðvarpsþætti um bækur og safnkostinn. Í dag mun þetta hljóðver verða opnað til „útláns“ og geta lánþegar tekið þar upp eigin hlaðvörp – eða bara hvað sem er.

Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri Borgarbókasafnsins, segir að hugmyndin hafi í raun kviknað út frá eigin áhuga á hlaðvarpsþáttum.

Þetta er búið að vera svolítið lengi í bígerð hjá okkur – rúmt ár. Þetta hófst nú þannig að ég hlusta sjálf svolítið á hlaðvarpsþætti og þar á meðal þátt sem Borgarbókasafnið í Stokkhólmi heldur úti og við hrifumst af þessum möguleika fyrir okkur til að tala um bækur og vekja athygli og áhuga á safnkostinum og öllu sem við erum að bralla hér. Núna er um það bil ár síðan fyrstu þættirnir okkar fóru í loftið, þeir sem við framleiðum sjálf. Svo héldum við áfram og tókum eina syrpu síðasta sumar, tókum leikhúsbókmenntir síðasta haust og fengum krakka til okkar til að spjalla um barnabækurnar fyrir jólin. Við erum alveg með langa lista af efni til að tala um í framtíðinni,“ segir Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri hjá Borgarbókasafninu, en í Borgarbókasafninu í Grófinni hefur verið starfrækt hlaðvarpsframleiðsla í litlu hljóðveri sem nú í dag verður opnað almenningi.

„Þessi hugmynd kviknaði svona samhliða þessu – fyrst að við vorum búin að koma okkur upp aðstöðu og tækjabúnaði á annað borð þá fannst okkur það bara algjörlega rökrétt og frábært að hleypa fleirum að. Og það erum við að gera núna, við erum að opna þessa aðstöðu okkar fyrir gesti og lánþega sem geta gert sína eigin hlaðvarpsþætti, eða tekið löng og ítarleg viðtöl við áhugavert fólk eða bara haldið einræðu um eigið hugðarefni.“

Ferlið er þannig að áhugasamir senda tölvupóst á hladvarp@borgarbokasafn.is og bóka þannig herbergið.

„Svo kemur fólk til okkar, fær lykilinn að Kompunni þar sem við erum búin að útbúa leiðbeiningar sem við höldum að séu nokkuð aðgengilegar. En ef fólk lendir í vandræðum þá er hér tæknikunnugt fólk sem getur eflaust stokkið til og reynt að leiðbeina svolítið. Í framhaldinu vonumst við líka til þess að geta haldið smiðjur eða stutt námskeið fyrir þá sem vilja fá aðeins dýpri skilning á þessu.“

Tækjabúnaðurinn sem boðið er upp á er upptökutæki, hljóðnemar, aðgangur að tölvu með klippiforriti þar sem hægt er að snurfusa útkomuna til – svo gengur fólk út með afraksturinn á minniskorti eða sendir það í gegnum netið.

Í dag verður svo formleg opnun á þessari nýju viðbót við safnið og hefst hún klukkan 17 í Grófinni.

„Þá geta allir komið og kíkt í Kompuna og fengið að prófa tækið. Við ætlum líka að spila þættina með lestrarhestunum okkar inni í barnadeild og svo frammi á því sem við köllum Handavinnutorg ætlum við að spila þáttinn sem drottning hlaðvarpsins gerði fyrir okkur, Vera Illugadóttir. Þar verður frumfluttur þátturinn hennar um bókaþjófinn – bókasafnsglæpasaga í Veru-stíl – mjög spennandi!“ segir Sunna Dís

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Fyrsta konan útskrifast frá Háskóla Íslands

Tímamót

Hef vonandi náð að gleðja einhverja í gegnum lífið

Tímamót

List í ljósi er okkar barn

Auglýsing

Nýjast

Árás á Downingstræti

Abdúlla verið konungur Jórdaníu í tuttugu ár

Apollo 14 lendir á Tunglinu

Stefán Jóhann Stefánsson verður forsætisráðherra

Þegar Challenger-skutlan fórst yfir Flórídaskaga

Burns kvöld á BrewDog

Auglýsing