Fjór­tánda lands­mót harmóniku­unn­enda hefst í Stykkis­hólmi á morgun. Mótið í ár er til­einkað Haf­steini Sigurðs­syni, tón­listar­kennara og harmóniku­leikara í Hólminum, sem féll frá árið 2012.

„Þetta er nokkuð stór hópur,“ segir Frið­jón Hall­gríms­son, for­maður Fé­lags harmóniku­unn­enda í Reykja­vík. „Það eru tíu fé­lög sem senda full­trúa á lands­mótið sem koma fram og leika fyrir dansi, og síðan kemur ein hljóm­sveit frá Fugla­firði í Fær­eyjum. Þetta harmóniku­gengi er ansi sam­heldinn hópur.“

Frið­jón segir við­burðinn sam­bæri­legan við í­þrótta­mót þótt ekki sé um keppni að ræða. Fé­lögin senda ein­stak­linga eða sveitir sem koma fram og eftir tón­leikana verða verð­launa­af­hendingar og meira fjör. Aldurs­hópurinn er breiður þótt Frið­jón segi hann því miður vera að eldast.

„Þetta er alveg frá þrjá­tíu og upp í níu­tíu,“ segir hann. „Ég hugsa að Villi Valli sé aldurs­for­setinn í hópnum í dag. Hann er kominn yfir ní­rætt en er enn í fínu fjöri.“

Allt innan handar

Það kann að skjóta skökku við að harmóniku­fé­lag frá Reykja­vík standi fyrir við­burðinum í Stykkis­hólmi en Frið­jón segir að­stöðu skorta í höfuð­staðnum.

„Það verður að vera hægt að labba á staðinn þar sem tón­leikarnir eru svo fólkið geti allt verið saman á tjald­stæði eða á hóteli,“ segir hann. „Það þarf að vera sam­heldni í hópnum sem næst ekki í Reykja­vík, eða þess vegna Akra­nesi eða Borgar­nesi. Tjald­svæðin eru bara allt of langt frá í­þrótta­húsunum. Í Stykkis­hólmi er þetta allt innan handar.“

Meira en bara hljóð­færi

Frið­jón segist sjálfur vera frekar mikill ný­græðingur á nikkunni.

„Ég er ekki búinn að spila nema í fjöru­tíu, fimm­tíu ár,“ segir hann og hlær. „Ég byrjaði ekki fyrr en ég var þrí­tugur.“

Að­spurður um hvað sé svona töfrandi við harmónikuna sem hljóð­færi segir Frið­jón hana vera ein­staka.

„Harmónikan er miklu meira en bara hljóð­færi, hún er eigin­lega hljóm­sveit,“ segir hann. „Það er hægt að halda ball með einni harmóniku, það eru engin önnur hljóð­færi sem bjóða upp á þennan mögu­leika. Fyrir okkur harmóniku­unn­endur er hún hljóð­færi gleðinnar því hún sam­einar fólk.“

En hvað með gítarinn?

„Ef það er góður maður með gítar getur hann vissu­lega safnað að sér fólki. En hann þarf helst að hafa söngvara með sér sem er ekki nauð­syn­legt með harmónikuna þótt það skemmi auð­vitað ekki fyrir. En það er önnur saga.“

Friðjón segir nikkuna eina hljóðfærið sem geti eitt á báti haldið uppi heilu balli.
Mynd/Aðsend

Greitt í rósum

Ein eftir­minni­legasta harmóniku­saga Frið­jóns er með há­tíðarí­vafi.

„Við vorum þrír sem fórum venju­lega að spila fyrir jólin á elli­heimilinu í Selja­hlíð,“ segir hann. „Einu sinni komst einn okkar ekki með svo við fórum bara tveir. Þegar við komum upp eftir fengum við bara greitt í þremur jóla­rósum.“

Tví­eykið tók við rósunum þótt það vantaði þriðja manninn sem fékk jóla­rósina svo af­henta síðar meir.

„Hann var ansi hissa en ég út­skýrði fyrir honum að við hefðum fengið rósir í laun fyrir að spila, en hann að launum fyrir að spila ekki.“