Hljóð­bóka­safn Ís­lands, áður Blindra­bóka­safn Ís­lands, fagnar fjöru­tíu árum í dag en að­dragandinn að stofnun þess var þó nokkru lengri. Fyrstu hljóð­bækurnar urðu til með segul­bandinu á sjötta ára­tugnum og um miðjan áttunda ára­tuginn tók Borgar­bóka­safnið svo að sér að dreifa hljóð­bókum sem Blindra­fé­lagið hljóð­ritaði. Þar varð til vísir að hljóð­bóka­safni undir heitinu Bókin heim og var það stað­sett í Sól­heima­safni og síðar í Hólm­garði.

„Þetta byrjaði með þörf, eins og svo margt annað,“ segir Marín Guð­rún Hrafns­dóttir, for­stöðu­maður Hljóð­bóka­safnsins. „Það vantaði bóka­safn fyrir á­kveðinn hóp fólks, eða blinda og sjón­skerta.“

Marín Guð­rún segir að þörfin hafi strax verið mikil og að safnið hafi vaxið hratt frá byrjun en stofnun þess miðast við reglu­gerð um Blindra­bóka­safn sem sam­þykkt var þann 7. maí 1982.

Hljóð­bóka­sprengja

Starf safnsins hefur breyst mikið á 40 árum og í dag er það að mestu raf­rænt.

„Lán­þegarnir eru auð­vitað lykil­at­riði fyrir okkur og sá hópur hefur breyst tölu­vert,“ segir Marín Guð­rún. „Til að byrja með voru þetta aðal­lega blindir og sjón­skertir og starfið gekk út á að þjónusta þá eins vel og hægt væri með náms­bækur og af­þreyingar­efni. Upp úr 1990 var svo farið að taka við vott­orðum hjá fólki sem glímir við les­blindu og þá varð sprenging í fjölda lán­þega.“

Í dag eru lesnar inn um 400 bækur fyrir Hljóð­bóka­safnið ár hvert. Staða hljóð­bókarinnar hefur breyst tals­vert og er safnið einnig farið að kaupa hljóð­rit af markaði.

„Síðast­liðin tvö til þrjú ár hefur orðið mikil breyting hvað varðar hlustun á hljóð­bækur,“ segir Marín Guð­rún. „Það er já­kvætt að markaðurinn sé farinn að sjá fólki fyrir hljóð­bókum því þetta er lokað safn, hér þurfa allir að skila vott­orði um prent­leturs­hömlun. En það er mjög gott fyrir okkur að það sé kominn svona sterkur hvati fyrir út­gef­endur að gefa út hljóð­bækur því margir vilja frekar hlusta eða gera hvort tveggja að lesa og hlusta á bækur.“

Sitt sýnist hverjum

Marín Guð­rún segir að það sé margt sem þurfi að hafa í huga þegar kemur að því að gera góða hljóð­bók.

„Okkar hlut­verk er fyrst og síðast að gera bók að­gengi­lega – ekki endi­lega að leik­lesa hana með til­þrifum eða bæta við um­hverfis­hljóðum,“ segir hún. „Sumir vilja að þessi um­gjörð sé sem hlut­lausust en lykil­at­riði er að lesturinn sé skýr og á­heyri­legur. Við erum mjög ströng með val á lesurum sem fara allir í gegnum lestrar­próf og val­nefnd sem velur úr, en við viljum endi­lega að fólk komi í prufur.“

„Síðast­liðin tvö til þrjú ár hefur orðið mikil breyting hvað varðar hlustun á hljóð­bækur.“

Leik­lestur hefur þó verið að færast í aukana með til­komu hljóð­bóka á markaði og segir Marín Guð­rún hann höfða til sumra.

„Margir gera þetta mjög vel en ýktur leik­lestur fer fyrir brjóstið á mörgum lán­þegum okkar,“ segir hún. „Það er mikil­vægt að finna jafn­vægið en okkar hlut­verk er fyrst og fremst að gera efni að­gengi­legt en ekki endi­lega að gera það meira að­laðandi.“

Björt fram­tíðar­sýn

Í til­efni af af­mælinu segir Marín Guð­rún að Hljóð­bóka­safnið hafi ný­lega gefið út stefnu og fram­tíðar­sýn til ársins 2025.

„Við settum okkur nokkur gildi, sem eru þjónusta, alúð og sam­vinna,“ segir hún. „Það er svo okkar á­skorun að halda á­fram að veita fram­úr­skarandi þjónustu í takt við nýja tækni og kröfur lán­þega. Við höfum verið að koma vel út úr þjónustu­könnunum og við viljum halda því á­fram.“

Þá hefur í til­efni af tíma­mótunum verið sett upp sýning um rit­höfundinn Guð­rúnu frá Lundi sem hefur verið gríðar­lega vin­sæl á Hljóð­bóka­safninu eins og annars staðar. Sýningin er opin á opnunar­tíma safnsins út maí­mánuð.

„Þar sem við erum alltaf að hugsa um að­gengi þá er sýningunni sjón­lýst fyrir blinda og sjón­skerta,“ segir Marín Guð­rún að lokum.