Hér á Vesturgötu er ég algerlega ótækjavædd, henti öllu frá mér og hef ekkert nema heimilið. Ég kaus það sjálf, ákvað að ég væri hætt störfum og lokaði bókinni,“ segir Sigrún Árnadóttir þýðandi, sem býr í íbúð fyrir eldri borgara á Vesturgötu í Reykjavík.

Lestu samt ekki enn þá? spyr ég hikandi. „Jú, bara af bók, ég hef góða sjón. Var að lesa Ólaf Jóhann, fannst sagan fara svolítið seint í gang en svo líkaði mér hún mjög vel.“ Hún kveðst muna eftir Ólafi Jóhanni sem strák, hún hafi þekkt foreldra hans.

Úr ellefu systkina hópi

Sigrún fæddist árið 1927 og er því komin á tíræðisaldur. Auk þess að taka við hinni íslensku fálkaorðu á gamlársdag úr hendi forseta Íslands, hlaut hún á liðnu sumri þýðingarverðlaun Letterstedtska sjóðsins, sem styrkir norræna samvinnu í vísindum, listum og iðnaði. Hún hefur þýtt 60 bækur á íslensku, flestar fyrir börn og unglinga, margar geysivinsælar. Í bunkanum eru 20 bækur eftir Astrid Lindgren og allar bækur Gunillu Bergström um snáðann Alfons Åberg, sem Sigrún gaf nafnið Einar Áskell. Viðtöl hafa birst við Sigrúnu um hann og fleiri persónur bókanna, en ég er forvitin um sögu hennar sjálfrar, einkum æsku og uppvöxt. Við hittumst ekki heldur spjöllum saman í síma.

„Fjölskylda mín er stór. Við vorum ellefu systkinin og öll komumst við upp og urðum foreldrar mismargra barna. Ég eignaðist sex og er svo lánsöm að þó ég sé orðin svona gömul eru þau öll á lífi og heilbrigð,“ segir Sigrún og heldur áfram. „Það er margvísleg reynsla sem fæst við að alast upp í stórum systkinahópi, reynsla sem þau börn fá síður að kynnast sem eru einbirni eða kannski tvö systkini í fjölskyldu. Það er barist um eitt og annað og oft þarf að liðka til. Ég gerði nokkrar vísur í tilefni sextugsafmælis Kristínar, systur minnar heitinnar og vék að þessu.

Við strákana eldri var stríðið oft heitt

og stóð jafnt um nætur og daga,

það var klórað og argað og rifið og reytt

og rokið svo heim til að klaga.

Heilög ævintýrabók

Sigrún ólst upp á Vopnafirði og segir fleiri barnmargar fjölskyldur hafa verið þar, bæði í þorpinu og sveitinni. „Pabbi var læknir og sinnti hverju heimili, tók til dæmis á móti mörgum börnum við mismunandi kringumstæður og var vel treyst. Hann hafði farið í framhaldsnám í lækningum til Bergen í Noregi og þá komist til Ósló á námskeið hjá fæðingarlækni sem þótti flinkastur á Norðurlöndum. Það kom honum vel.“

Læknishúsið stóð í miðju plássinu. „Það var timburhús sem eyðilagðist í eldi eina nótt eftir að foreldrar mínir seldu það og það var gert að hreppsskrifstofum,“ minnist Sigrún. „Skyldmenni mín hafa unnið að því undanfarið að koma upp vef um húsið og fjölskylduna. Verkefnið er vel á vegi statt, ég sá myndir af því um daginn hjá syni mínum.“

Fréttablaðið/ Vilhelm Gunnarsson

Þegar lesefni Sigrúnar í æsku ber á góma nefnir hún eina bók sérstaklega. „Við Kristín systir, sem vorum elstu stelpurnar, fengum Ævintýri H. C. Andersens í jólagjöf, kannski 1935 eða 6, og sú bók var svo heilagur gripur að hún var aldrei höfð í bókahillu í barnaherberginu heldur geymd í læsta skápnum þar sem sparibækur foreldranna voru, enda sá ekki á henni þegar ég afhenti hana löngu seinna elsta barnabarni mínu, Theresu, sem nú býr í Sviss og er tónlistarkona. Hún hefur aldrei búið á Íslandi en mamma hennar var svo ötul að kenna henni íslensku að enn þann dag í dag talar hún eins og hún hafi verið hér alla tíð. Þó á hún ungverskan föður, bassaleikara sem býr í Frakklandi.“

Brautin mörkuð í MR

Sigrún segir áhugafólk á Vopnafirði hafa í sjálfboðavinnu reynt að halda uppi svolítilli framhaldskennslu til að krakkar gætu bætt við sig þekkingu eftir barnaskólann. „Pabbi kenndi eitthvað og kennslukonan kenndi eitthvað, fólk hjálpaðist að. Þetta var nytsamur undirbúningur og það voru nokkrir unglingar sem gátu farið beint í annan bekk í gagnfræðadeildinni á Akureyri, þar á meðal ég. Vinafólk foreldra minna skaut skjólshúsi yfir mig fyrir norðan.“

Svo kveðst Sigrún hafa lent á braut sem hún var ekki sérlega spennt fyrir og lokaði að baki sér. Ég fór í Húsmæðrakennaraskólann sem þá var, hann var í kjallara Háskóla Íslands, norðurálmunni. Ég byrjaði í öðrum árgangi hans 1946, og var í tvo vetur, við vorum þar tólf og nú er ég ein eftir. Helga Sigurðar skólastjóri var dugleg og kraftmikil kona, hún fékk háskólakennara til að kenna okkur bóklegu fögin. Steingrímur J. Þorsteinsson kenndi íslensku. Þegar náminu var að ljúka hélt Helga veislu og bauð gestum, meðal þeirra var Sigurður Nordal. Við stúlkurnar snerumst kringum gestina, Sigurður heilsaði mér og sagði: „Steingrímur vill endilega fá yður í íslenskudeildina.“ Hann Steingrímur lét þetta ekki bara lauslega út úr sér, því þegar ég svo þurfti á því að halda að vera utan skóla í fjórða bekk í Menntaskólanum í Reykjavík, vegna þess að ég varð að vinna dálítið fyrir mér, þá var það Steingrímur sem lagði inn gott orð hjá Pálma rektor MR. Mín braut var mörkuð þarna. Ég las fimmta bekkinn utan skóla um sumarið til að spara tíma, sat í sjötta bekk fram að hátíðum og las svo utanskóla til stúdentsprófs. – Hvernig gekk? – Jú, það gekk ágætlega, ég dúxaði.“

Við frekara spjall kemst ég að því að Sigrún hafði líka dúxað á gagnfræðaprófinu fyrir norðan. Þó hafði hún verið heima að sinna yngri systkinum um tíma undir vor, því pabbi hennar lá veikur á Landspítalanum og mamma hennar fór suður til hans.

Vikunám í þýsku dugði vel

Í Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni kenndi Sigrún einn vetur með Bryndísi Steinþórsdóttur, vinkonu sinni og skólasystur. Það var rétt áður en hún tók ákvörðun um að fara í menntaskóla. „Alls staðar mætti ég góðu fólki,“ segir hún. „Einn hængur gat verið á inngöngu minni í fjórða bekk í MR því þar var þýska kennd í þriðja bekk, en ég hafði enga þýsku lært fyrir norðan. Þórður Kristleifsson, kennari á Laugarvatni, kenndi mér þá þýsku í viku áður en ég fór í MR og hún dugði vel.“ Þegar haft er orð á að hún hljóti að hafa verið námfús segir Sigrún: „Ég átti létt með að læra og hafði gaman af því.“ Að loknu stúdentsprófi kveðst hún hafa lokið fyrri hluta prófs í íslenskum fræðum við Háskólann, samsvarandi BA gráðu, sem hafi verið hennar undirstaða undir ævistarf við þýðingar, lestur þingræða og prófarka.

Marga vikna einangrun

Nú hefur Sigrún verið margar vikur í sjálfskipaðri einangrun. „Ég veit að hjartað í mér er það lélegt að COVID-19 mundi drepa mig í einum hvelli, svoleiðis að ég fer ekkert í félagsstarfið hér á Vesturgötunni. Set bara upp grímu og sæki matinn, borða hann svo heima hjá mér,“ segir hún. „Ég hef lent í að meiðast í þrjú skipti og er háð göngugrind, það hefur líka dregið úr ferðum mínum.“