Þetta var frumraun mín í Dyrfjallahlaupi. Laugavegshlaupið er alltaf um þetta leyti en í ár ákvað ég að taka Dyrfjöll líka og fara svo Laugaveginn í næstu viku,“ segir hlaupagikkurinn Þorbergur Ingi Jónsson, sem kom fyrstur í mark í Dyrfjallahlaupinu 11. júlí. Það er 23 kílómetra leið um vegleysur, urð og skafla með hækkun upp á 1.087 metra alls. Yngri bróðir hans, Halldór Hermann, var skæðasti keppinauturinn. Þorbergur Ingi segir þá alltaf hafa verið í góðu formi. „Við vorum báðir í fótbolta og úti í náttúrunni í uppvextinum og bara á fullu allan daginn. Rétt komum inn til að pissa og borða – skyr í hádeginu og fisk á kvöldin – og svo aftur út. Ólumst upp á Neskaupstað og þar var mikið frjálsræði.“

Nú eru bræðurnir búsettir á Akureyri. Þorbergur Ingi segist hafa verið í frjálsum síðan 2001 og svo í lengri götuhlaupum, nú síðustu árin í utanvegahlaupum, meðal annars því erfiðasta í heimi, kringum Mont Blanc. „Í fyrra fór ég þar 170 kílómetra með tíu þúsund metra hækkun alls. Það var mikil þrekraun í þunnu lofti og tók mig alveg 25 klukkutíma.“

Halldór Hermann hefur lengst af einbeitt sér að fótboltanum, að sögn Þorbergs Inga. „Ég hugsa að hann hafi grætt á því í uppvextinum að vera alltaf að kljást við stærri og sterkari bróður. Hann varð mun betri í fótbolta en ég. Held ég hafi alltaf unnið hann í langhlaupi en hann er sterkari núna og mundi örugglega vinna mig í spretthlaupi.“

Það eru ekki bara þeir bræður sem eru fótfráir. Unnusta Þorbergs Inga, Eva Birgisdóttir, sigraði í kvennaflokki í Dyrfjallahlaupinu og dóttirin Kristín Eva, tveggja ára, stekkur milli leiktækja á róló meðan við tölum saman. „Hún er mjög virk,“ segir hann. „Vill alltaf vera hoppandi.“