Sumir nemendur hugsa sér til hreyfings um páskana og við getum ekki stoppað þá í að fara til síns heima. En við getum heldur ekki tryggt öryggi skólahópsins þegar það fólk kemur til baka eftir dvöl víða um land. Því verður frekari kennslu frestað hjá okkur, með lýðheilsu- og sóttvarnahagsmuni að leiðarljósi,“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri. Hún segir þau tvö námskeið sem eftir eru verða kennd í ágúst, gangi allt samkvæmt áætlun. „Þá gerum við okkur líka glaðan dag á útskriftarhátíð og förum í ferðalag. Við sjáum tækifæri í því að nemendurnir geti komið hingað og upplifað Flateyri að sumri til, þegar enginn snjór er.“

Til þessa hefur Flateyri verið smitfrí af kórónaveiru enda samskipti íbúa og nemenda við fólk utan svæðisins takmörkuð, meðal annars vegna illveðurs og ófærðar, að sögn Ingibjargar. „En nú er búið að greina einhver tvö, þrjú smit á Ísafirði og í Bolungarvík svo þau nálgast okkur,“ bætir hún við.

Þó nokkrir nemendur skólans ætla að dvelja fram á vorið og einhverjir í sumar. „Þeir voru búnir að ákveða það áður en þetta veiruástand kom upp,“ segir Ingibjörg. „Sumir eru að sækja um aðra skóla í haust, til dæmis Kvikmyndaskólann og Listaháskólann, og ætla að finna sér eitthvað að gera þangað til, aðrir hyggjast setjast hér að. Hér eru fjórir eða fimm búsettir enn úr árganginum í fyrra, fóru kannski í smá tíma en komu aftur. Þessi skóli eykur íbúafjöldann á Flateyri og fólkið úr honum auðgar samfélagið því það kemur með margt nýtt,“ segir hún og tekur fram að búið sé að opna fyrir umsóknir um næsta skólaár.

Þeir núverandi nemendur sem vilja vera áfram á Flateyri, þó hlé verði á skólastarfi, halda húsnæði sínu fram í maí. Þeir eru bæði af útivistar- og hugmyndabraut, að sögn Ingibjargar. Hún segir skólann munu leitast við að hjálpa þeim að finna möguleg verkefni í samstarfi við sveitarfélagið og aðra staðbundna aðila. „Þrír á útivistarbrautinni elska fjöllin hér og eru að kenna á snjóbretti og skíði,“ lýsir hún.

Ingibjörg segir nemendurna hafa öðlast ótrúlega reynslu þennan erfiða vetur en eftir standi samheldinn og sterkur hópur sem aðstandendur skólans séu stoltir af. „Stanslaus óveður, mesti snjór í áratugi, snjóflóð á þorpið og heimsfaraldur eru ekki atriði sem við vorum með í kynningarefni síðasta árs fyrir þetta skólaár!“ tekur hún fram.

„Vetur í Lýðskólanum á Flateyri breytir lífi fólks, í þetta sinn kannski meira en við gerðum ráð fyrir en í gegnum þessar hremmingar hefur hópurinn eflst við hverja raun og enginn nemandi hætt. Við hittumst svo smitfrí og hress í ágúst til að klára skólann!“

Við sjáum tækifæri í því að nemendurnir geti komið hingað í ágúst og upplifað Flateyri að sumri til, þegar enginn snjór er, segir Ingibjörg Guðmundsdóttir skólastjóri.